Á sýningunni eru teikningar og vídeó. „Ég er að búa til mín vörumerki, sem eiga sér enga fyrirmynd í nútímanum heldur eru hreinn tilbúningur. Fyrir mér geta vörumerki táknað mjög margt og þótt það megi finna nostalgíu í verkunum þá eru þau samt lýsandi fyrir upplýsingatímann árið 2022,“ segir Sigurður.

Myndirnar eru gerðar með trélitum, blýöntum, bleki og kúlupenna. „Þetta voru einmitt verkfærin sem ég notaði í skóla þegar ég var að krota eitt og annað. Verkin geta minnt á auglýsingar eða byrjun á kvikmynd og líka verið eintóm lógó. Ekkert í þeim minnir á fjöldaframleiðslu. Þau geta svo líka verið tákn fyrir samskipti.“

Þjáning í samskiptum

Samskipti eru listamanninum ofarlega í huga og hann heldur áfram: „Það er mín trú að grundvöll mannlegra þjáninga sé að finna í samskiptum. Við eigum öll þennan sársauka sameiginlegan, hvort sem um er að ræða ofdekrað tólf ára barn eða fátæka gamla konu. Við þekkjum öll sársaukann í samskiptum og það að skilja ekki eða misskilja hvert annað.

Þú segir mér kannski að þig langi til að gera Hollywood-kvikmynd og í stað þess að segja að það sé ágætt hjá þér þá segi ég: Gangi þér vel – og glotti um leið. Glottið verður eins konar tákn, en þar sem ég hef verið að gagnrýna þig og særa undir rós áttu erfitt með að svara því.“

Sigurður ítrekar að lógóin í verkunum vísi ekki í neitt sérstakt. „Eins og í allri góðri myndlist er áhorfandanum ekki sagt hvað verkin þýða, hann verður sjálfur að túlka það.“ Hann segist nostra við verkin. „Þau eru hrein og bein tjáning.“

Aldrei sama tónlistin

Vídeóverkið á sýningunni sýnir Universal kvikmyndalógóið í lúppu en tónlistin sem er spiluð er aldrei sú sama. Þannig má heyra Rolling Stones, Bach og Madonnu svo örfá nöfn séu nefnd. „Við erum mismunandi einstaklingar með mismunandi tónlistarsmekk og þarna er verið að vísa til þess,“ segir Sigurður.

Sigurður útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2012. Hann hefur haldið þrettán einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga. Árið 2020 hlaut hann tilnefningu til hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna.