„Ég vona að ég sé að skila góðu þjóðhátíðarlagi af mér. Ég er voðalega kátur með það,“ segir Hreimur Örn Heimisson um nýja þjóðhátíðarlagið, Göngum í takt, og bætir við að Vignir Snær Vigfússon hafi unnið lagið með honum „frá a til ö“, eins og hann orðar það.

„Eðli málsins samkvæmt var náttúrlega engin hátíð í fyrra. Þannig fór þetta bara og nú er komið að okkur að starta þessu upp á nýtt og við erum bara klár í það,“ segir Hreimur sem einnig á heiðurinn af einu þekktasta þjóðhátíðarlagi síðari tíma, Lífið er yndislegt, sem hann flutti með hljómsveit sinni Landi og sonum fyrir sléttum tveimur áratugum.

„Lífið er yndislegt kom út 1. júní 2001 þannig að það eru komin 20 ár, bara á næstu vikum, og ég fékk símtal einhvern tímann upp úr áramótunum og var spurður hvort það væri ekki kominn tími á nýtt lag frá mér svona í ljósi þess að Lífið er yndislegt er tuttugu ára gamalt og ég bara tók þessari áskorun fagnandi.“

Senuþjófurinn Magni

Hreimur segir að þar sem hann standi á þessum tímamótum með Lífið er yndislegt hafi honum þótt liggja beint við að kalla Magna Ásgeirsson til aftur en hann söng Lífið er yndislegt með honum á sínum tíma.


„Ég fékk Magna að sjálfsögðu með mér aftur þannig að hann syngur líka í þessu lagi eins og hann gerði í Lífið er yndislegt og nær pínu að stela senunni aftur eins og hann gerði fyrir 20 árum. Honum er lagið að stela þrumunni minni.

Svo syngur hún Embla Margrét, dóttir mína, líka með mér í þessu lagi. Hún verður sextán ára á þessu ári og var ekki fædd þegar Lífið er yndislegt kom út. Þannig að það er falleg saga á bak við þetta allt saman.“

Gengið í takt

Hreimur lagði einnig upp með að segja fallega sögu í Göngum í takt og kalla fram tilfinningu sem hann telur nánast alla þjóðhátíðargesti þekkja. „Ég reyni að nálgast Þjóðhátíðina frá öðru sjónarhorni og ég held að akkúrat þessi nálgun hafi ekki verið reynd áður,“ segir Hreimur.

„Í þessu lagi er ég að einblína á eftirvæntinguna eftir því að fara niður í Dal. Allir sem hafa farið á Þjóðhátíð kannast við tilfinninguna að labba niður eftir og með hverju skrefi sem þú tekur færist þú nær Dalnum og þá byggist upp svona eftirvænting og spenna. Lagið fjallar svolítið mikið um þessa göngu og þess vegna heitir það Göngum í takt.

Sjáumst í Dalnum

Hverjir hafa ekki sagt á Þjóðhátíð: Heyrðu, við erum að fara niður í Dal. Við hittum ykkur þar. Við sjáumst niðri í Dal. Það er alltaf eitthvað svona. Allir að drífa sig niður eftir á ákveðnum tímapunkti og um það er lagið. Að fara þarna niður í Dal,“ segir Hreimur sem að sjálfsögðu gjörþekkir þessa tilfinningu eftir ófáa slíka göngutúra.

„Já, heldur betur. Heldur betur. En ég hef aldrei farið á Þjóðhátíð öðruvísi en sem listamaður og til þess að skemmta. Ég er náttúrlega svo ungur þegar við förum fyrst, 1997. Þá er ég nýorðinn nítján,“ segir Hreimur sem örfáum árum síðar söng um yndislega lífið sem var rétt að byrja „undir stjörnusalnum inn í Herjólfsdalnum“ og endurtekur nú leikinn tuttugu árum síðar en þó enn nógu ungur og hress til þess að geta hrist fram alvöru þjóðhátíðarlag sem verður frumflutt í næstu viku og fer síðan lóðbeint inn á Spotify og í útvarp.