“Það hefur verið draumur okkar lengi að stækka við okkur og færa þessa ein­stöku eld­gosa­upp­lifun til sem flestra. Nú er Lava Show í Reykja­vík og við gætum ekki verið sáttari við út­komuna,“ segir Ragn­hildur Ágústs­dóttir, einn tveggja stofn­enda Lava show, lifandi hraun­sýningarinnar, sem hefur nú opnað dyr sínar að Fiski­slóð 73 á Granda.

Ragn­hildur segir það ansi langt síðan hraun hafi síðast runnið í Reykja­vík.
“Við getum ekki beðið eftir að leyfa gestum okkar að upp­lifa sjónar­spilið sem rauð­glóandi hraunið býður upp á í öruggu og fal­legu rými,“ segir Ragn­hildur.

Hjónin Ragnhildur Ágústsdóttir og Júlíus Ingi Jónsson stofnuðu Lava Show eftir að hafa upplifað eldgosið á Fimmvörðuhálsi árið 2010.
Mynd/Aðsend

Á sýningunni geta gestir og gangandi meðal annars séð hraun brætt upp í ellefu­hundruð gráður á selsíus og hellt inn í sýningar­salinn.

Ragn­hildur og Júlíus Ingi Jóns­son, eigin­maður hennar, stofnuðu Lava Show eftir að hafa upp­lifað eld­gosið á Fimm­vörðu­hálsi árið 2010. Árið 2016 vann Lava Show til verð­launa í Gul­legginu og var síðar sama ár valið úr hundruðum um­sækj­enda sem eitt af tíu fyrir­tækjum til þátt­töku í við­skipta­hraðlinum Startup Reykja­vík. Árið 2021 hlaut Lava Show Ný­sköpunar­verð­laun ferða­þjónustunnar og í júlí síðast­liðnum al­þjóð­legu ný­sköpunar­verð­launin Global Win.

Sýningin var form­lega opnuð árið 2018 í sýningar­sal í Vík í Mýr­dal og segir Ragn­hildur að bæði lands­menn sem og ferða­menn hafi tekið henni fagnandi. Miðar seljist hratt, enda sé sýningin sú eina sinnar tegundar í heiminum.