Þótt við hér á Íslandi teljum mörg að heimsfaraldurinn sé að baki eru stórir hlutar heimsins enn í miklum vanda og bólusetningarhlutfall lágt. Suður-Asía er hluti af þessu vandamáli en þar fer mikil heimsframleiðsla fram. Filippseyjar, Malasía, Taíland og Indónesía eru til dæmis neðst á lista Bloomberg yfir lönd sem best er að heimsækja. Í upphafi voru Víetnam og Taíland með tiltölulega lága smittíðni en sú staða hefur gjörbreyst. Víetnam er einn stærsti framleiðandinn fyrir Bandaríkin fyrir utan Kína. Þar hafa sumar verksmiðjur verið lokaðar mánuðum saman.

Yfir helmingur af öllum Nike-skóm er framleiddur í Víetnam. Talsmaður Nike sagði í samtali við BBC að búast mætti við töfum á nýjum vörum fram á næsta vor. Costco í Bretlandi hefur einnig kvartað yfir vöruskorti og reynir að koma í veg fyrir hamstur á salernispappír. Þar eiga flutningsvandamál líka þátt þar sem erfiðlega hefur gengið að fá bílstjóra á flutningabíla. Adidas er í sömu sporum og Nike og spáir miklum verðhækkunum vegna skorts og erfiðleikum í flutningum á milli landa. Apple getur ekki framleitt nýja símann og svarað eftirspurn vegna þessa og stórir myndavélaframleiðendur sömuleiðis. Þótt jólin komi í IKEA hefur fyrirtækið lent í svipuðum aðstæðum vegna stöðvunar á flutningum á milli landa. Fyrirtækið hefur brugðið á það ráð að senda vörur með flutningalestum frá Asíu til Evrópu ásamt því að leigja gámaskip.

Verksmiðjur í Asíu hafa verið lokaðar í langan tíma vegna mikillar útbreiðslu Covid og því er mikil hætta á vöruskorti í Evrópu og Bandaríkjunum.

Fólk hefur sparað peninga í heimsfaraldrinum og hefur eftirspurn eftir ýmsum hlutum, sérstaklega til heimilisins, snaraukist. Afhendingartími er því miður langur á þess konar vörum. „Við höfum tilfelli þar sem afhendingartíminn er sex til sjö mánuðir,“ segir Steinar Aase hjá rafmagnsvörufyrirtækinu Power í Noregi við NRK. Hann segir að sumar hillur kunni að verða tómar um jólin. Noregur og lönd með fáa íbúa eru síðust í röðinni til að fá vörur.

Norðmenn benda á að ef fólk ætli að panta vörur fyrir jólin ætti það að gerast nú þegar. Þótt verslunareigendur séu svartsýnir fyrir jólin eru umhverfissinnar ánægðir. Þeir benda á að fólk eigi alltof mikið af fatnaði og upplifun sé miklu betri og umhverfisvænni kostur auk þess sem hægt sé að kaupa vandaðar notaðar vörur á nytjamörkuðum.

Kaupmenn búast við að fólk muni dekra við sig um jólin í mat og drykk. Þeir búast við að stærsti hluti jólagjafainnkaupa fari fram í tilboðsvikunni „Black Friday“ sem nú orðið teygir sig yfir nokkra daga. Í fyrra var heimsmet sett í verslun á þessum dögum, jafnt í verslunum sem á netinu. Líklega má búast við sömu eftirspurn í ár.