Breski mannfræðingurinn og rithöfundurinn Sarah Thomas heimsótti Ísland fyrst árið 2008, heillaðist af landi og þjóð og flutti í Hnífsdal þar sem hún bjó um nokkurra ára skeið. Sarah skrifaði bókina The Raven’s Nest, eða Hrafnshreiðrið, byggða á upplifun sinni af Íslandi sem hún lýsir sem vistfræðilegum endurminningum.

„Að flytja til Íslands var ófyrirséð, það eiginlega kom fyrir mig og var ekki eitthvert stórt plan. Ég kom árið 2008, rétt fyrir hrunið. Mér var boðið að sýna kvikmynd á kvikmyndahátíð á Ísafirði fyrir mannfræðinga. Þetta átti bara að vera einnar viku vinnuferð sem svo algjörlega sprengdi í mér heilann,“ segir Sarah.

The Raven’s Nest kom út í Bretlandi á dögunum og er Sarah stödd hér á landi til að kynna bókina, meðal annars á Vestfjörðum. Sarah segir náttúru Íslands hafa verið stóran part af því af hverju hún ákvað að flytja hingað á sínum tíma.

„Ég held að það hafi að miklu leyti snúist um birtuna. Ég veit að það hljómar kannski sjálfsagt fyrir Íslendinga en að vera á stað þar sem það er bjart klukkan tvö um nótt sneri á vissan hátt hausnum mínum á hvolf.“

Sarah hefur komið til Íslands nánast á hverju sumri síðan 2008. Hér má sjá hana í Hornvík á Hornströndum sumarið 2019.
Mynd/Aðsend

Skipti tímanum á milli landanna

Að sögn Söruh gerðust hlutirnir mjög náttúrulega í kjölfarið. Sumarið 2009 var henni boðið sumarstarf í Landmannalaugum, hún hóf svo samband með íslenskum manni og fluttist í Hnífsdal á Vestfjörðum.

„Ég kom þangað á hverju sumri þar til ég fluttist alfarið 2010. Síðan um veturinn 2012, eftir að ég gifti mig, ákváðum við að prófa að hafa vetursetu á Englandi og koma svo til Íslands á sumrin. Þetta voru tvö ár af fastri búsetu en síðan sex ár af því að deila tímanum á milli Englands og Íslands. Mér líður eins og ég sé búin að vera í langtímasambandi við Ísland og kem hingað á hverju sumri,“ segir hún.

Sarah vann við búskap í Hnífsdal og segist vera fegin því að hún ákvað að skrifa um reynslu sína af því lífi í bókinni, enda hafi margt breyst síðan þá.

„Tímabilið sem bókin fjallar um virkar mjög ólíkt Íslandi dagsins í dag. Ég er ánægð með að hafa náð að fanga það, af því á þeim tíma leið mér eins og ég væri að ná í skottið á ákveðnu sögulegu tímabili hvað varðar búskaparhætti. Hlutirnir voru að breytast og fólkið á landsbyggðinni var að takast á við þessar breytingar, til dæmis hvað varðar stórfyrirtæki sem voru að gleypa upp fiskveiðikvótann,“ segir hún.

Mynd/Aðsend

Heillaðist af hrafnshreiðri

Sarah lýsir The Raven’s Nest sem vistfræðilegum endurminningum, bæði að því leyti að bókin fjallar um umhverfismál og ágang mannsins á náttúruna en einnig að því leyti að hún fjallar á heildrænan hátt um það hvernig mannlíf og náttúra tengjast órjúfanlegum böndum.

Titillinn The Raven’s Nest kom til Söruh þegar hún sá hrafnshreiður á Náttúrugripasafninu í Bolungarvík.

„Það var um metri á breidd og sett saman úr alls kyns hlutum eins og fiskineti, beinum og meira að segja hrífu. Smíðin var eins og einhvers konar samtíningur margra tegunda. Mér fannst það svo áhugavert í ljósi þess hvernig við tölum um mannöldina og hvernig mannkynið hefur sett mark sitt á jörðina á óafturkræfan hátt. Mér fannst dásamlegt hvernig hrafninn var búinn að nota manngerða hluti til að búa til harðgert heimili og upplifði þetta sem ákveðið samtal við náttúruna sem varð svo að allsherjar myndlíkingu fyrir bókina,“ segir Sarah.

Heldurðu að bókin muni höfða til Íslendinga?

„Ég get ekki fullyrt að Íslendingum muni finnast bókin áhugaverð en ég vona að einhverjir þeirra muni hafa áhuga á utanaðkomandi sjónarhorni á sitt eigið land. Andri Snær Magnason las bókina og gaf henni sín meðmæli. Í ummælunum sem hann skrifaði vísar hann í eitt af ykkar þekktari máltækjum: Glöggt er gests augað. Kannski sé ég einhverja hluti sem Íslendingar sjá ekki vegna þess að þeir eru svo vanir þeim.“