Þungarokksveitin Horrible Youth sendi frá sér smáskífuna Adults undir lok síðasta mánaðar en laginu Ruiner var sleppt lausu í október þannig að forsmekkurinn af því sem koma skal með breiðskífu í sumar er þegar orðinn tvöfaldur.

„Það er bara allt að gerast. Plata í sumar og svo erum við að fara að spila núna,“ segir Ágúst Bent, söngvari og gítarleikari Horrible Youth, og nefnir Eistnaflug sérstaklega sem einn af fyrirsjáanlegum hápunktum hjá hljómsveitinni í nánustu framtíð.

„Það eru víst margir um hituna núna,“ segir Gústi með vísan til þess að nú er loksins búið að létta öllum sóttvarnahömlum af skemmtanalífinu. „Eini gallinn hjá okkur er að við lendum svolítið á milli þar sem við erum ekki beint að spila aðgengilegustu tónlistina en hún er samt ekki sú óaðgengilegasta.


Við þykjum ekki nógu harðir fyrir þá allra hörðustu og svo kannski aðeins of harðir fyrir meginstrauminn. Við fáum til dæmis ekki X dagspilun á X-inu. Þetta er bara svona. Þannig að við erum að horfa svolítið út,“ segir Gústi um útrás þeirra Frosta Jóns trommuleikara, Hálfdáns Árnasonar bassaleikara og gítarleikarans Helga Rúnars Gunnarssonar.

Treysta á rokkþorstann

„Við ætlum að skoða að fara út í sumar og ef ekki í sumar þá næsta sumar. Þessi tegund tónlistar þarf kannski aðeins stærri vettvang en ég samt er alveg á því að Íslendingar eru rokkþyrstir,“ segir Gústi og nefnir hljómsveitina Dimmu kenningu sinni til stuðnings. „Hún á nú ansi breiðan aðdáendahóp. Þannig að það er allt hægt í þessu, sko.“

Gústi segir þá félaga vera til í tuskið eftir langvarandi þrengingar á tónleikamarkaði en að þeir ætli þó að fara hægt af stað og stefna í að slá í upp úr miðjum mánuðinum. Og byrja þá helst á öruggum stað eins og til dæmis Dillon. „Við erum bara að fara af stað, sko, og langar náttúrlega bara að spila en nennum ekki alveg að vera í fyrsta hollinu.

Við erum að gera plötuna og það fer rosalegur tími í þetta allt saman þannig að maður þarf svolítið að forgangsraða. Vegna þess að þegar við spilum „live“ þá viljum við vera þéttir og það þarf að æfa og það tekur tíma líka.

Þannig að þetta er eiginlega búið að henta okkur rosavel og ef þessi opnun núna hangir þá erum við að fara helvíti vel út úr þessu,“ segir Gústi og bætir við að sveitin hafi nýtt dauða tímann undanfarin tvö ár vel.


„Þú veist, ef allt hefði verið opið þá hefði ég hent þessu út allt of snemma. Ég er svo óþolinmóður. Við erum búnir að geta legið aðeins á þessu og ég er búinn að læra smá þolinmæði. Maður er ekki nema 40 ára en búinn að læra að það er oft gott að hlaupa ekki alltaf.“

Melódískt grugg

Gústi segir nýju plötuna, sem er önnur plata Horrible Youth, svo gott sem tilbúna. „Við erum búnir að taka upp megnið af henni. Sex lög eru bara að verða til og svo eru það bara hin fjögur þannig að við náum að koma henni út í sumar.“

Gústi lagði drögin að fyrstu plötunni á meðan hann bjó í Noregi í fimm ára og kom að borðinu með mikið af uppsöfnuðu efni þaðan fyrir nýju plötuna sem hefur fengið vinnutitilinn Arthouse failure. „Það sem er öðruvísi með þessa plötu er að strákarnir koma inn snemma í ferlinu og hjálpa mér að slípa, pússa, semja og í raun og veru raða öllu saman. Þetta hefði verið miklu verra ef ég hefði gert þetta einn eins og fyrstu plötuna. Þá er enginn að skamma mann eða segja manni ef eitthvað er vitlaust eða hallærislegt eða eitthvað. Það er gott að hafa síunarferli.“

„Maður horfir svona öfundaraugum á æskuna og lætur allt fara í taugarnar á sér,“ segir Gústi en bendir síðan á að nafnið Horrible Youth vísi í laglínu af fyrri plötunni.
Mynd/Björn Árnason

Þótt Gústi hafi alið manninn í Noregi, hvar svartmetallinn hefur löngum átt sitt varnarþing, segist hann alveg laus við öll áhrif af slíku. „Ég tók ekki black metalið inn í hjartað á mér. Ég hef aldrei verið þeim megin. Þetta er svona svolítið grugg og melódískara. Þetta er kannski meira Svía megin myndi ég segja. Svíarnir eru melódískari, Norðmenn eru alveg flottir en ég er hrifnari af Svíunum. Það er skemmtilegri flokkur.“

Miðaldra beiskja

Þú talar um ykkur sem menn komna af léttasta skeiði en svo rokkið þið undir merkjum skelfilegrar æsku. Hvaða stælar eru það?

„Er þetta ekki bara biturleiki manns sem er að nálgast miðjan aldur? Þetta er „midlife angst“ eiginlega. Maður horfir svona öfundaraugum á æskuna og lætur allt fara í taugarnar á sér,“ segir Gústi en bendir síðan á að nafnið Horrible Youth vísi í laglínu af fyrri plötunni.

„Og mér fannst þetta smellpassa fyrir okkur. Maður er alltaf með einhverjar efasemdir. Er maður orðinn of gamall í þetta? En svo þarf ekki að horfa lengra en til hljómsveitar eins og HAM til að sjá að það er hægt að gera þetta rétt þótt maður eldist.“