Nú erum við búin að kynna þessar tillögur í lokuðum samráðshópum með hagsmunaaðilum innan og utan réttarkerfisins, sem og á opnu málþingi í HR um daginn og ég held að það sé óhætt að segja að bæði brotaþolar og fagaðilar hafi tekið þessum tillögum vel,“ segir Hildur Fjóla Antonsdóttir, doktorsnemi í réttarfélagsfræði við Háskólann í Lundi. Hún hefur nýverið lagt lokahönd á skýrslu um stöðu þolenda í kynferðisafbrotamálum á Norðurlöndunum. Þar má finna tillögur um hvernig breyta megi réttarstöðu þolenda hér á landi. Í Noregi voru svipaðar tillögur innleiddar fyrir rúmum áratug.

Hildur Fjóla er með bakgrunn í mannfræði og kynjafræði og starfaði áður við þróunarmál. Áður en hún hóf doktorsrannsókn sína hafði hún einnig unnið að rannsóknum um meðferð nauðgunarmála innan réttarkerfisins, en þær liggja meðal annars til grundvallar aðgerða­áætlun dómsmálaráðuneytisins um meðferð kynferðisbrota.

Síðastliðin ár hefur hún farið ofan í saumana á íslensku réttarkerfi og hvernig það tekur á kynferðisbrotamálum samanborið við hin Norðurlöndin. Í doktorsverkefni sínu ræddi hún við 35 þolendur um hugmyndir þeirra um réttlæti og upplifun þeirra af kerfinu. Hildur Fjóla settist niður með blaðamanni og fór yfir tillögurnar.

„Það er ekki bara útkoman í málinu sem skiptir brotaþola máli, þó hún sé vissulega gríðarlega mikilvæg, en það er líka hvernig er að málinu staðið“, segir Hildur Fjóla. „Þess vegna skiptir máli að bæði brotaþolar og sakborningar upplifi að réttarferlið sjálft sé réttlátt.“

Hún segir að það sem komi brotaþolum oft óþægilega á óvart sé að þeir eru ekki aðilar að sakamálinu heldur hafa stöðu vitnis. Það er einungis ríkið og sakborningur sem hafa slíka aðild. Tillögur hennar miða því við að brotaþolar fái aðild að sakamálinu og fái þannig auknar upplýsingar um gang málsins innan réttarkerfisins og aukinn rétt til að taka þátt í réttarferlinu. Einnig leggur hún til að aðgangur brotaþola að bótarétti sé efldur.

Hildur Fjóla hefur síðustu ár rannsakað norrænt réttarkerfi. Hefur hún rætt við á fjórða tug þolenda kynferðisbrota og sat réttarhöld í Noregi. Hún leggur til að íslenska kerfið færist nær því norska.
Sigtryggur Ari

Fái innsýn í eigin mál

Fyrsta tillagan snýr að því að þolendur eigi að hafa aðgang að réttargæslumanni áður en rætt er við lögreglu. „Brotaþolar í kynferðisbrotamálum eru margir mjög tregir við að kæra brot. Fyrir því eru ýmsar ástæður, fólk er oft þjakað af sjálfsásökunum og skömm, þó maður voni að það fari minnkandi með aukinni umræðu. Eins er staðan því miður sú að réttarkerfið okkar er ekki vel í stakk búið að taka á þessum málum, fólk veit það alveg.“

Hún telur mikilvægt að þolendum kynferðisbrota sé almennt gefinn kostur á því að fá lögfræðilega ráðgjöf á kostnað ríkisins áður en tekin er ákvörðun um að leggja fram kæru, en þeir brotaþolar sem leita til Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítalanum fá slíka ráðgjöf.

„Það getur verið mikilvægt fyrir brotaþola að fá upplýsingar um hvernig réttarkerfið virkar og hvort mál þeirra sé nægilega sterkt út frá sjónarhóli lögfræðinnar áður en tekin er ákvörðun um að kæra. Þetta getur líka skipt máli fyrir brotaþola í litlum bæjarfélögum þar sem allir þekkja alla og þeir treysta sér einhverra hluta vegna ekki til að leita beint til lögreglunnar á staðnum.“

Sakborningar í sakamálum hafa aðgang að öllum gögnum máls á meðan á lögreglurannsókn stendur svo lengi sem lögregla telur að slíkt geti ekki skaðað rannsóknina. Hildur Fjóla leggur til að brotaþolar hafi sama aðgang að gögnum, en ekki eingöngu þeim gögnum sem snúa að þeim sjálfum.

„Þetta er liður í því að gefa brotaþola meiri innsýn í rannsókn málsins og tækifæri til að leggja sitt af mörkum til að aðstoða við rannsóknina. Brotaþoli hefur oft hvað mesta þekkingu á málinu og getur búið yfir mikilvægum upplýsingum án þess að vita það, því hann veit ekki hvað er að gerast í rannsókninni.“

Hildur Fjóla hefur fundað víða um þessar tillögur með lögfræðingum og hafa þær fengið góðan hljómgrunn.
Sigtryggur Ari

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir dómsmálaráðherra hefur kynnt sér tillögurnar. Hún sagði í síðustu viku hún sé að undirbúa lagabreytingar til að bæta stöðu þeirra sem beittir eru kynferðisofbeldi. Hvatti hún lögregluembættin til að auka upplýsingagjöf til þolenda. Hildur Fjóla er ánægð með viðbrögð ráðherra. Ástæðan fyrir því að auka upplýsingagjöf er ekki aðeins sú að brotaþoli geti þá aðstoðað við rannsókn málsins heldur getur það verið mikilvægt fyrir öryggi brotaþola.

„Það eru ákveðnir punktar í rannsókn málsins sem geta valdið brotaþolum miklum áhyggjum. Segjum sem svo að ef verið er að kæra fyrrverandi kærasta, kunningja eða samstarfsmann, þá skiptir það máli að vita hvenær viðkomandi fær að vita af kærunni og hvenær lögregla er búin að fá viðkomandi í skýrslutöku. Það getur verið hræðilega erfitt að vita ekkert.“

Sama gildir um hvort sá grunaði er dæmdur í gæsluvarðhald eða sleppt úr haldi. „Ég talaði við unga konu sem las það í blöðunum að sá sem hún kærði væri laus úr gæsluvarðhaldi. Hún hringdi í panikk í réttargæslumanninn, sem þurfti svo að hringja í lögregluna til að fá frekari upplýsingar. Þetta er líka öryggisatriði.“ Sama gildir um þegar hinn dæmdi hefur lokið afplánun og er látinn laus úr fangelsi.

Ein tillagan snýr að því að brotaþoli geti gert athugasemdir við lögregluskýrslu hins kærða áður en lögregla hættir rannsókn eða sendir málið áfram til héraðssaksóknara. „Svona mál byggja oftar en ekki á framburðum og oft er ekki mikið af öðrum sönnunargögnum. Því skiptir miklu máli að brotaþoli fái tækifæri til að bregðast við framburði sakbornings áður en rannsókn lýkur. Þetta er ekki síst spurning um að auka gæði lögreglurannsóknarinnar.“

Fundur í stað bréfs

Flestum kynferðisbrotamálum lýkur annaðhvort með því að lögregla hættir rannsókn í málinu eða að héraðssaksóknari fellir málið niður vegna ónægra sannana. „Það er ofsalega mikið áfall fyrir brotaþola að fá niðurfellingarbréfið, fólk upplifir oft mikla höfnun og að því hafi ekki verið trúað. Fólk getur hreinlega misst trúna á samfélagið. Þetta er oft líka í fyrsta sinn sem brotaþoli fær innsýn í það sem sakborningur sagði, þess vegna skiptir líka máli að brotaþolar fái að bregðast við framburði sakborninga áður en lögreglurannsókninni lýkur.“

Fólk getur hreinlega misst trúna á samfélagið.

Í dag er í gangi tilraunaverkefni hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra þar sem þolandi er kallaður á fund í stað þess að fá bréf þegar mál er fellt niður. Ein af tillögum Hildar Fjólu er að þetta verklag sé tekið upp á landsvísu. „Nýleg meistararannsókn Karenar Birnu Þorvaldsdóttur sýnir einmitt hvað þetta skiptir miklu máli fyrir brotaþola. Þá fær brotaþoli betri útskýringar á því hvers vegna málið var fellt niður sem getur dregið úr áfallinu. Það skiptir líka máli að fá að heyra að þó að mál sé fellt niður þýði það ekki að þú sért ekki að segja satt, að þér sé ekki trúað. Það þýðir oftast bara að saksóknari telji sig ekki getað sannað að brot hafi átt sér stað.“

Sett í súrrealískar aðstæður

Ef gefin er út ákæra í málinu og það fer fyrir dóm þá leggur Hildur Fjóla til að brotaþoli fái að hitta saksóknarann áður en að réttarhöldunum kemur. „Það getur skipt máli fyrir brotaþola að hitta þann aðila sem sækir málið. Eins og staðan er í dag þá gengur brotaþoli inn í dómsal og þarf að byrja á því að átta sig á hver er hvað, hver er saksóknarinn og hver er verjandinn,“ segir Hildur Fjóla.

Þetta er eins og að vera kölluð inn á fund sem er löngu byrjaður með fólki sem þú þekkir ekki neitt og þú veist ekkert hvað er á undan gengið. En þetta er samt fundur sem snýst um brot gegn þér og varðar mikilvæga hagsmuni þína.

Þinghald í kynferðisbrotamálum er iðulega lokað og brotaþoli sem lykilvitni í málinu gefur skýrslu fyrir dómi á eftir ákærða.

„Eins og þetta er í dag þá er brotaþola sagt að mæta niður í dóm, kannski um tíuleytið, þegar réttarhöldin eru byrjuð. Þér er mögulega sagt að bíða í hliðarherbergi, síðan ertu kallaður inn í dómsal þar sem eina manneskjan sem þú mögulega þekkir er ákærði fyrir utan réttargæslumanninn þinn. Þetta er eins og að vera kölluð inn á fund sem er löngu byrjaður með fólki sem þú þekkir ekki neitt og þú veist ekkert hvað er á undan gengið. En þetta er samt fundur sem snýst um brot gegn þér og varðar mikilvæga hagsmuni þína. Þarna átt þú svo að segja frá kynferðisbrotinu og málsatvikum í smáatriðum og helst í réttri tímaröð án þess að gleyma neinu sem gæti skipt máli. Þegar þú hefur lokið máli þínu og svarað spurningum er þér vísað út þar sem réttarhöldin eru lokuð og þú ert bara vitni í málinu. Þetta eru í raun súrrealískar aðstæður sem við setjum fólk í.“

Ein af tillögunum sem Hildur Fjóla leggur til er að brotaþoli gefi skýrslu fyrir dómi á undan ákærða og hafi rétt til að sitja inni í dómsal í gegnum öll réttarhöldin og réttargæslumaður hafi rétt til að spyrja spurninga og koma með athugasemdir fyrir hönd skjólstæðings síns. Þannig er málum háttað í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi. „Það getur skipt suma brotaþola miklu máli að fá að fylgjast með réttarhöldunum og taka þátt í þeim. Sumir brotaþolar hafa þó engan áhuga á því að vera í sama herbergi og ákærði og í þeim tilvikum ætti þeim að standa til boða að fylgjast með réttarhöldunum í hljóði og mynd í öðru herbergi.“

Sanngjarnt að fá tjónið bætt

Í ljósi þess hversu fá kynferðisbrotamál enda með sakfellingu og hversu sjaldgæft er að brotaþolar stefni gerendum í einkamáli er ljóst að aðeins örlítill hluti brotaþola fær bætur vegna afleiðinga brots. Hildur Fjóla leggur til að bæta aðgengi brotaþola að bótarétti með því að lækka sönnunarkröfu bótanefndar og rýmka gjafsóknarreglur svo brotaþolar hafi tök á að höfða einkamál gegn þeim sem ofbeldinu beitti.

Staðreyndin er aftur á móti sú að afleiðingar kynferðisofbeldis geta verið bæði víðtækar og langvinnar og því einungis sanngjarnt að fá tjónið bætt. Þó svo að peningar bæti aldrei fyrir kynferðisbrot.

„Bætur eru iðulega það síðasta sem brotaþolar hugsa um í þessu samhengi og mörgum finnst óþægilegt að fá pening sem bætur fyrir kynferðisbrot. Sumir brotaþolar telja jafnvel að það grafi undan framburði þeirra að krefjast bóta. Þetta er ekki síst vegna þess að samfélagsmýtur um að konur kæri kynferðisbrot til að verða sér úti um pening lifa því miður enn góðu lífi. Staðreyndin er aftur á móti sú að afleiðingar kynferðisofbeldis geta verið bæði víðtækar og langvinnar og því einungis sanngjarnt að fá tjónið bætt. Þó svo að peningar bæti aldrei fyrir kynferðisbrot.“

Árangur þrotlausrar vinnu

Hildur Fjóla hefur fundað víða um tillögurnar, bæði á Lagadögum og á lokuðum fundum.

„Mér hefur fundist að það sé góður hljómgrunnur fyrir þessum tillögum. Það má segja að lögfræðingar séu miklu vanari að horfa á réttarkerfið út frá sjónarhóli sakborninga en mér hefur fundist að þeir séu í auknum mæli tilbúnir að horfa einnig á réttarkerfið út frá sjónarhóli brotaþola. Þessi þrotlausa barátta þolenda kynferðisbrota á síðustu árum og áratugum hefur verið að skila sér. Ég held að það sé óhætt að segja að það hefur orðið viðhorfsbreyting víða innan réttarkerfisins á undanförnum árum.“

Þessar tillögur eru ekki einskorðaðar við kynferðisbrot. Hildur Fjóla segir þetta geta átt við alla þá sem þurfa á réttargæslumanni að halda, til dæmis þolendur líkamsárása og aðstandendur fórnarlamba morða og manndrápa.

Tillögur Hildar Fjólu

 • Að brotaþolar eigi rétt á að ráðfæra sig við réttargæslumann á kostnað ríkisins áður en tekin er ákvörðun um að kæra málið til lögreglu.
 • Að aðgangur brotaþola að gögnum máls á rannsóknarstigi sé almennt sá sami og aðgangur hins kærða nema lögregla telji að það geti skaðað rannsókn málsins. Að lögreglu sé skylt að upplýsa brotaþola um gang málsins, þá sérstaklega um þegar kærði hefur verið upplýstur um kæruna og þegar kærði hefur lokið skýrslutöku hjá lögreglu.
 • Að lögreglu sé skylt að upplýsa brotaþola ef kærði er settur í gæsluvarðhald og þegar kærði er látinn laus úr gæsluvarðhaldi.
 • Að brotaþoli hafi rétt til að gera athugasemdir við lögregluskýrslu hins kærða og önnur gögn sem lögregla aflar við rannsókn málsins áður en rannsókn lýkur, nema lögregla telji það geta skaðað rannsókn málsins.
 • Að brotaþola sé boðið að vera tilkynnt um niðurfellingu máls í viðtali við fulltrúa embættis héraðssaksóknara.
 • Að brotaþola sé boðið að hitta saksóknara áður en mál fer fyrir dóm.
 • Að brotaþoli beri vitni fyrir dómi á undan ákærða og gert sé ráð fyrir að brotaþoli sitji í réttarsal í gegnum réttarhöldin ásamt réttargæslumanni sínum eða fylgist með réttarhöldunum í hljóði og mynd í gegnum fjarbúnað.
 • Að brotaþoli eða réttargæslumaður hans hafi rétt til að leggja fram viðbótarsönnunargögn, spyrja ákærða og vitni viðbótarspurninga og koma með athugasemdir á eftir saksóknara og verjanda.
 • Að brotaþoli hafi rétt til að ávarpa dóminn áður en réttarhöldum lýkur.
 • Að brotaþoli hafi rétt til að áfrýja dómi.
 • Að fangelsisyfirvöldum beri skylda til að upplýsa brotaþola, ef hann svo kýs, þegar hinn dæmdi hefur afplánun refsingar, fær leyfi úr fangelsi, er fluttur í opið fangelsi, hlé er gert á afplánun hans, strýkur úr fangelsi, er færður á áfangaheimili, afplánar refsingu undir rafrænu eftirliti eða lýkur afplánun. Heimilt sé að veita brotaþola frekari upplýsingar um afplánun fanga ef brýnir hagsmunir hans þykja mæla með því.
 • Að bótanefnd miði við lægri sönnunarkröfu í stað þess að miða við sönnunarkröfu í sakamálum.
 • Að brotaþolar hafi rétt á gjafsókn og ríkissjóður ábyrgist dæmdar bætur í einkamálum með sambærilegum hætti og kveðið er á um í lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.