Næsta föstu­dag er Valentínusar­dagur. Katta­kaffi­húsið stendur fyrir við­burði um kvöldið þar sem ein­staklingar geta mætt og farið á svo­kölluð hrað­stefnu­mót. Þá gefst þeim færi á að kynnast öðrum ein­hleypum með því að eiga stutt spjall. Það verður svo al­vöru Elvis-eftir­herma sem sér um að allt fari rétt fram og heldur stuðinu í þátt­tak­endum.

Ekki bara rómantík

„Okkur fannst spennandi að prófa eitt­hvað nýtt, það er orðið svo þreytt að hanga bara á Tinder og hittast á börum. Svo erum við að fara að vera með alls konar upp­á­komur hjá okkur, spila­kvöld, prjóna­kvöld og alls konar sniðugt. Þetta er fyrsti svona við­burðurinn hjá okkur og því langaði okkur að gera þetta með stæl,“ segir Gígja Sara Björns­son, annar eig­enda Katta­kaffi­hússins.

Hrað­stefnu­mótin ganga þannig fyrir sig að hver um­ferð er 5–7 mínútur. Á borðunum verða svo skemmti­legar spurningar sem hægt er að brydda upp á ef ske kynni að fólk yrði uppi­skroppa með um­ræðu­efni.

„Elvis lætur svo þátt­tak­endur vita þegar næsta um­ferð hefst. Það verða að sjálf­sögðu klósett- og snar­lpásur og þá er bakk­elsið okkar og drykkir í boði. Þegar kvöldinu lýkur láta þátt­tak­endur okkur vita hvaða fólk það væri til í að hitta aftur. Ef báða aðila langar að halda kynnunum á­fram, þá látum við þá fá upp­lýsingar um hvort annað,“ segir Gígja.

Hún segir að planið sé ekki endi­lega bara að skapa ein­hverja rómantík.

„Þetta þarf ekkert endi­lega að vera rómantísk stund, þetta getur verið skemmti­legt og létt spjall sem leiðir til þess að maður eignast vin eða bara spjall við á­huga­verða mann­eskju.“

Gígja Sara Björnsson og Tagnheiður Birgisdóttir stofnuðu Kattakaffihúsið árið 2018.

Kisu­kóngurinn Elvis

„Af því hann er rosa­lega skemmti­legur og rómantískur. Okkur fannst til­valið að hafa eitt­hvað smá fyndið í gangi. En það er skemmti­leg stað­reynd að Elvis var kallaður „The Cat King“, eða Kisu­kóngurinn, í Kína. Er ekki til­valið að sjálfur Kisu­kóngurinn og á­star­fíkillinn Elvis sjái um svona kvöld?“ spyr Gígja, sposk í bragði.

Gígja er hand­viss um að nær­vera kattanna hafi góð á­hrif á stemninguna á föstu­daginn.

„Kettir eru þekktir fyrir að róa fólk og ef þú hefur ekkert að segja þá er til­valið að skoða kött eða fylgjast með kisunum. Það myndi róa mig mikið ef ég væri með kisu í fanginu á deiti,“ segir Gígja.

Felix og Logi

Það hafa alls fimm­tíu kettir fengið nýtt heimili fyrir til­stilli Katta­kaffi­hússins, en gestir geta ætt­leitt kettina sem búa þar.

„Það eru rosa margar skemmti­legar sögur en mér þykir alltaf mjög vænt um eina. Felix og Logi eru tveir högnar sem komu inn á Katta­kaffi­húsið á svipuðum tíma. Logi var al­gjör kettlingur og keli­rófa en Felix smá fýlu­púki og skrítinn. Eftir smá tíma urðu þeir ó­trú­lega góðir vinir, en það er sjald­gæft að sjá. Það voru aðrar kisur hérna á þeim tíma en þeir ein­hvern veginn urðu bara mjög góðir vinir. Konan sem ætlaði að taka Loga endaði á því að taka Felix líka þar sem hún vildi ekki slíta þá í sundur. Ég er eigin­lega viss um að Felix hefði verið lengi að fá heimili þar sem hann var svo mikill fýlu­púki, en mér fannst svo sætt hvað þeir urðu nánir og að hún sýndi því skilning,“ segir Gígja.

Fjörið hefst klukkan 19.00 næsta föstu­dag og hægt er að skrá sig á katta­kaffi­husid.is.