Ævar Þór Bene­dikts­son, rit­höfundur og leikari, sendi á dögunum frá sér sína 30. bók sem ber titilinn Drengurinn með ljáinn. Tólf ár eru síðan Ævar hóf rit­höfundar­ferilinn með út­gáfu fyrstu bókar sinnar, Stór­kost­legt líf herra Rósar, árið 2010.

„Ég er mjög á­nægður með að það lendi akkúrat þannig að það sé jóla­bókin sem fái að vera þrí­tugasta bókin. Þetta fær mann til að líta til baka. Það vildi til dæmis enginn gefa út fyrstu bókina mína, þannig að ég þurfti að gefa hana út sjálfur og lærði brjál­æðis­lega mikið af því,“ segir Ævar.

Ljóst er að Ævar er mjög af­kasta­mikill höfundur en á þessu ári hefur hann gefið út þrjár bækur, hina áður­nefndu Drenginn með ljáinn, hroll­vekjuna Skóla­slit og létt­lestrar­bókina Þín eigin saga: Sæ­skrímsli. Hann segir við­brögð les­enda vera það skemmti­legasta við rit­höfundar­starfið.

„Ég myndi aldrei hafa tæki­færi til að gefa út svona margar bækur nema af því að við­brögðin hafa verið þannig að krakkarnir vilja meira, sem er náttúr­lega bara æðis­legt. Þetta er líka hvatning fyrir mig til að halda á­fram og reyna að gera enn betur, finna enn fleiri leiðir til að leika mér með bókar­formið.“

Drengurinn með ljáinn er þrítugasta bók Ævars Þórs Benediktssonar.
Kápa/Forlagið

Hárs­breidd frá dauðanum

Drengurinn með ljáinn fjallar um dauðann og segir frá stráknum Halli sem lendir hárs­breidd frá dauðanum og upp­lifir í kjöl­farið dular­fulla hluti.

„Þetta er barna- og ung­menna­bók um dauðann og allar þær til­finningar sem fylgja honum. Hvað sorg getur verið erfið en líka fal­leg og flókin á sama tíma. Eftir að aðal­per­sónan Hallur verður næstum því fyrir bíl kemst hann að því að sumir þeirra sem deyja næstum því verða næmari í nokkra daga á eftir. Hann er í kjöl­farið gerður að drengnum með ljáinn og þarf að að­stoða fólk sem raun­veru­lega deyr við að komast á sinn loka-á­fanga­stað, hver sem hann kann að vera,“ segir Ævar.

Hvernig er að skrifa um dauðann fyrir börn?

„Ég lagðist í rann­sóknar­vinnu um hvernig ætti að tækla þetta, enda dauðinn mál­efni sem þarf að vanda sig við. Besta ráðið sem ég rakst á, sem er líka sama nálgun og ég var með þegar ég var að gera þættina um Ævar vísinda­mann, er að segja satt frá. Treysta krökkunum. Ég var líka mjög með­vitað að passa að tengja allt tal um dauðann ekkert inn í trúar­brögð eða neitt slíkt, heldur miklu frekar skoða til­finningarnar sem tengjast dauðanum og því að missa ein­hvern. Mig langaði að nálgast við­fangs­efnið af virðingu en það er mikill húmor, spenna og smá hrollur þarna inni á milli líka.“

Ævar Þór segist hafa nálgast við­fangs­efnið dauðann af virðingu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Lífið getur endað hve­nær sem er

Mörgum finnst mjög ó­þægi­legt að ræða dauðann en Ævar segir að það þurfi alls ekkert að hlífa börnum við þessu um­fjöllunar­efni.

„Krakkar eru miklu klárari heldur en við viljum að þau séu. Við megum ekki gleyma því, jafn­vel þegar kemur að jafn erfiðu um­fjöllunar­efni og dauðinn er. Þá eru þau líka oft á tíðum að ganga í gegnum það ná­kvæm­lega sama og við full­orðna fólkið og þess vegna er svo mikil­vægt að tala um hlutina.“

Í Drengnum með ljáinn leikur Ævar sér með bók­mennta­form ung­linga­bóka en hver kafli heitir eitt­hvað „dauðans“ og endar í miðri setningu.

„Hver kafli getur endað hve­nær sem er, því lífið getur endað hve­nær sem er. Þetta er hrá bók um hráar til­finningar. Allt í sam­bandi við dauðann er svo ó­trú­lega mis­munandi eftir fólki og hver og einn upp­lifir það á sinn hátt. Hvernig ég leik mér með formið í bókinni er mín leið til að nálgast það,“ segir Ævar.

Krakkar eru miklu klárari heldur en við viljum að þau séu. Við megum ekki gleyma því, jafn­vel þegar kemur að jafn erfiðu um­fjöllunar­efni og dauðinn er.

Mynd­lýst af bróður Ævars

Bókin er ríku­lega mynd­lýst af bróður Ævars, Sigur­jóni Lín­dal Bene­dikts­syni, sem er 18 ára nemandi í mynd­list við Verk­mennta­skólann á Akur­eyri. Að sögn Ævars er ekki al­gengt að ung­menna­bækur séu mynd­lýstar.

„Jónsi bróðir gaf mér kola­mynd sem hann teiknaði í jóla­gjöf fyrir nokkrum árum og ég man að ég opnaði pakkann og hugsaði: „Við erum að fara að gera bók saman, ég þarf bara að finna réttu söguna.“ Alltaf þegar ég var búinn að skrifa kafla fékk hann þá senda og bjó svo til hvert lista­verkið á fætur öðru. Aðal­per­sóna bókarinnar elskar að krota í skóla­bækurnar sínar og það var svo­lítið pælingin með upp­setningunni, að þetta væri bók sem hefði komið ein­stak­lega snyrti­leg úr prent­smiðjunni og svo hefði ein­hver komist í hana og byrjað að teikna. Þetta gefur henni mjög skemmti­lega á­ferð og hjálpar til að gera hana ó­líka öllum öðrum bókum sem ég hef hingað til skrifað,“ segir Ævar.

Drengurinn með ljáinn inniheldur fjölda teikninga eftir bróður Ævars, Sigurjón Líndal Benediktsson.
Mynd/Sigurjón Líndal Benediktsson

Datt ekkert nógu skemmti­legt í hug

Drengurinn með ljáinn markar kafla­skil í höfundar­verki Ævars Þórs. Auk þess að vera hans fyrsta ung­menna­bók er þetta í fyrsta skipti í átta ár sem Ævar sendir ekki frá sér Þín eigin bók fyrir jólin. Spurður um hvort hann sé hættur með hinn geysi­vin­sæla Þín eigin bóka­flokk segir Ævar:

„Í vor var ég búinn að vera að rembast í tvo mánuði að finna hver næsta Þín eigin bók ætti að vera. Á hverju ári hef ég reynt að leika mér með Þitt eigið-formið og þróa það, en í þetta skiptið datt mér ekkert nógu skemmti­legt í hug. Svo allt í einu mætti hug­myndin um Drenginn með ljáinn á svæðið og þá var ekki aftur snúið. Stuttu Þín eigin bækurnar, létt­lestar­bækurnar, munu alveg halda á­fram að koma út en stóru Þín eigin bækurnar eru kannski komnar í pásu í smá tíma. Þar til að ég fæ ein­hverja alveg brilljant hug­mynd.“

Heldurðu að þú munir ein­hvern tíma skrifa full­orðins skáld­sögu?

„Það getur vel verið, aldrei að segja aldrei, mér finnst bara miklu skemmti­legra að skrifa fyrir börn og ung­linga. Þar má allt. Það er ekki alltaf í boði í full­orðins­bókum. Eða hvað? Kannski má allt í full­orðins­bókum og það er bara ekki búið að láta reyna al­menni­lega á það.“

Út­gáfu bókarinnar Drengurinn með ljáinn verður fagnað í Nexus sunnu­daginn 13. nóvember klukkan 14.00.