Thomas Markle, faðir Meghan Markle, biðlar til hennar og prins Harry í viðtali við 60 minutes um að fá að hitta nýtt barnabarn sitt, Lillibet.
Markle hefur ekki hitt dóttur sína í um þrjú ár og grátbiður hana, í stiklu fyrir viðtalið, að fyrirgefa sér en á sama tíma hótar hann þó að opinbera leyndarmál hennar.
Meghan hætti að tala við hann í aðdraganda brúðkaups hennar og Harry eftir að hann varð uppvís að því að stilla upp myndum fyrir gulu pressuna.
Hann segir í stiklunni að hann sé orðinn örvæntingarfullur og vilji ekkert frekar en að „vopnahléi“ verði lýst yfir.
Spurður hvernig hann heyrði af fæðingu Lillibet segir hann að hann hafi heyrt um fæðinguna í fjölmiðlum, hafi ekki einu sinni fengið símtal eða skilaboð.
„Ég verð mjög vonsvikinn ef ég fæ ekki að halda á barnabarninu mínu,“ segir hann.
Greint er frá á breska miðlinum Mirror. Viðtalið verður sýnt á sunnudag á 60 Minutes Australia.