Fimmti áratugurinn með tilheyrandi hnésíðum kjólum og pilsum verður fyrirferðarmikill með haustinu. Margir helstu tískuhönnuðir heimsins boða dragtir, jafnt pils- sem buxnadragtir og fallega, kvenlega, hnésíða kjóla. Michael Kors, Prada, Dior, Valentino, Givenchy og Saint Lauren sýndu slíkan fatnað fyrir haust- og vetrartískuna 2020-2021. Tískan verður kvenleg og konur geta farið að nota aftur hanska sem ná upp að olnboga. Tískan eftir stríðsárin á fimmta og í upphafi sjötta áratugar er það sem hönnuðirnir horfa til.

Tískan verður elegant og stílhrein. Efnin vönduð og sniðin falleg. Tískan höfðar til flestra kvenna enda eru buxnadragtir þægilegur fatnaður og praktískur. Það má segja að nokkurs konar stríð sé í gangi í heiminum, stríð við COVID-19. Fólk bíður eftir betri tíð, alveg eins og það gerði í stríðslok seinni heimsstyrjaldarinnar. Á meðan karlmennirnir voru á vígvellinum fóru konur í stórum stíl út á vinnumarkaðinn, en við það breyttist klæðnaður þeirra töluvert og ný efni eins og viskós og jersey urðu til í staðinn fyrir silki og ull, sem voru dýr klæði. Ullin var þar að auki notuð í hermannafatnað og silki í fallhlífar.

Hvað sem því líður er gaman að skoða myndir af þeirri tísku sem mun birtast okkur í haust og til samanburðar að kíkja á gamlar myndir af Hollywoodstjörnunni Katharine Hepburn sem var fædd árið 1907 og lék í mörgum frægum kvikmyndum.

Katharine Hepburn í buxnadragt í kringum 1950. Dragtin er ekki ósvipuð þeim sem koma á markað í haust. Þessi glæsilega Hollywoodstjarna kom oft fram í tímaritum og hafði mikil áhrif á kventískuna á sínum tíma, þegar hún var að breytast mjög mikið.
Pilsdragt frá Dior sem kynnt var á tískuviku í París fyrir haust-og vetrartískuna 2020-2021.
Katharine Hepburn árið 1955. Þarna er hún í hnésíðum, köflóttum kjól en marga líka þessum má sjá í hausttískunni fram undan.
Þessi fallega og kvenlega dragt er frá Altuzarra fyrir 2020-2021.
Glæsileg og kvenleg dragt frá Michael Kors fyrir haustið. Pilsin síkka.
Önnur dragt frá Michael Kors fyrir haustið og veturinn, mjög flott snið.