Guð­rún Berg­mann er nýjasti gesturinn í pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Guð­rún, segist löngu komin á stað í lífinu þar sem hún verður að vera sam­kvæm sinni eigin sann­færingu og er sann­færð um að margt í til­verunni sé öðru­vísi en virðist við fyrstu sýn.

„Við erum and­leg vera í efnis­legum líkama. Það er andinn sem fer þegar fólk deyr, ekki líkaminn. Hann verður eftir. Þetta sá ég þegar maðurinn minn dó. Hann dó heima og hálf­tíma eftir að hann var dáinn sá ég að andinn var farinn.

Hann leit út eins og Gulli, en var ekki Gulli. Andinn var farinn úr skrokknum. Andinn var það sem bjó til allt í þessum líkama, enda talaði hann sjálfur um að hann væri ekki þetta farar­tæki sem hann var í, heldur andi. Ég fæ gæsa­húð þegar ég tala um þetta.“

Guð­rún hefur í meira en 30 ár starfað við heilsu. Hún glímdi sjálf við heilsu­leysi um ára­bil, sem var það sem kveikti á­huga hennar sjálfrar á heilsu.

„Ég var alltaf sjálf að leita og læknarnir voru búnir að greina mig með í­myndunar­veiki út af öllum ein­kennunum. Ég var búin að horfa á fólk í kringum mig taka mikið af lyfjum og vissi að það væri ekki mín leið. En ein­kennin voru mjög þrá­lát og ég var til dæmis alltaf með sýkingar í kinn-og ennis­holum og meltingin í ó­lagi.

Það var ekki fyrr en síðar að ég gerði þá tengingu að mis­notkun sem ég varð fyrir sem barn hafi spilað inn í. Ég sé núna að það bjó til mikinn kvíða og setti líkamann úr jafn­vægi. Ég fékk maga­sár þegar ég var bara 10 ára gömul, sem þótti með ein­dæmum og eftir það átti ég í miklu basli með meltinguna í mörg ár. Ég var að basla við alls konar vanda­mál í tauga­kerfinu og líkamanum í fleiri fleiri ár.“

Guð­rún hefur um ára­bil haldið alls kyns nám­skeið og lauk ný­lega nám­skeiði númer 80 í hreinu fæði og hreinsun á líkamanum.

„Það er alltaf jafn­gaman að sjá hvað fólk finnur miklar breytingar á þeim 3 vikum sem það hreinsar fæðið. Eftir þessar vikur hefur fólk svo tæki­færi á að velja upp á nýtt, þar sem kerfið er búið að hreinsa sig.
Við lifum á tímum þar sem hefur aldrei verið meira af auka­efnum í mat og flestir eru í streitu, þannig að það er nauð­syn­legt að gefa líkamanum tæki­færi á að laga sig reglu­lega.“

Guð­rún hefur verið ó­hrædd við að viðra skoðanir sem ganga gegn megin­straumnum á köflum og hún segir að það hafi aldrei verið mikil­vægara en nú að fólk hlusti á inn­sæi sitt.

„Fyrir tveimur árum voru allir sem töluðu um það sem er að gerast í Davos og hjá World Economic Forum kallaðir sam­særis­fólk, en nú er mjög margt af þessu orðið opin­bert og liggur bein­línis fyrir.

Það er verið að ljóstra upp hlutum sem hafa verið í felum lengi og nú er ekki lengur hægt að loka bara augunum. Við höfum svo­lítið verið stödd í Truman-Show og svo einn góðan veður­dag opnum við augun og sjáum hvað er að gerast.“