Þótt Horfnar sé nýjasta bókin í ritröð Stefáns Mána um Hörð Grímsson, þá er hún sú fjórða í þeirri tímalínu sem sögurnar gerast. „Fyrstu sögurnar komu út nokkurn veginn í réttri tímaröð en það var fyrst í Svartagaldri sem ég fór aftur til fortíðar og byrjaði á nýrri tímalínu,“ segir Stefán Máni.

Spurður hvort hann sé búinn að ákveða hversu margar bækurnar um Hörð muni verða segir hann: „Eins og staðan er í dag er ég ekki alveg búinn með karlinn. Kannski á ég ekki eftir að vilja hætta. Maður verður samt að hætta áður en maður fer út í einhverja vitleysu. Ætli ég viti nokkuð svarið við þessari spurningu? Ég hef allavega svo gaman af Herði að ég er ekkert að fara að hætta strax.“

Hernaðarleyndarmál

Ætlarðu að láta fara illa fyrir Herði? spyr blaðamaður og fær svarið: „Þú spyrð mig að þessu á hverju ári! Það er algjört hernaðarleyndarmál hvernig mun fara fyrir Herði. En hann er þannig gerður að maður gerir ekki ráð fyrir að allt gangi upp í hans lífi.“

En yrði ekki erfitt að skilja við Hörð, sem á svo marga aðdáendur? „Ég er einn af þeim. Mér finnst óskaplega gaman að skrifa um Hörð og vera með hann inni í hausnum og skrifa bækurnar um hann.“

Skuggar fortíðar

Í Horfnar er Hörður sendur á Kirkjubæjarklaustur þar sem hann gerist varðstjóri. Þýskar stúlkur eru á ferð á svæðinu. Svo sjást þær ekki lengur.

„Ég fékk þá hugmynd að nota Kirkjubæjarklaustur sem sögusvið en þekkti ekkert til þar og auglýsti á Facebook eftir tengilið á staðnum. Ég komst í samband við heimamann, Marvin Einarsson, fór austur og tók myndir og glósur. Síðan hef ég farið þarna nokkrum sinnum mér til ánægju og yndisauka, því ég er mjög hrifinn af þessum stað. Það var líka skemmtilegt að setja Hörð í nýtt umhverfi. Hann er ókunnugi maðurinn á staðnum.

Þarna rannsakar hann hvarf tveggja stúlkna og það kemur upp úr krafsinu að mannshvörf hafa orðið þarna áður. Hörður fer að róta í skuggum fortíðar.“

Stefán Máni hefur fengið sterk viðbrögð frá þeim sem lesið hafa bókina. „Viðbrögðin hafa verið frábær. Bókin er að falla virkilega vel í kramið hjá aðdáendum Harðar og öðrum. Margir segja mér að þetta sé mín besta bók, en um það er ég ekki dómbær,“ segir Stefán Máni.