„Við erum bara hópur af vinum sem hafa gaman að því að ferðast á mótorhjólum og ákváðum að fara út í það að láta gott af okkur leiða meðan við vorum að gera það sem okkur þótti skemmtilegast,“ segir Gylfi Hauksson, forsvarsmaður góðgerðasamtakanna Toy Run Iceland, í samtali við Fréttablaðið.
Á hverju ári eru framleidd sérstök barmmerki fyrir Toy Run Iceland en samtökin voru stofnuð fyrir fjórum árum síðan. „Fyrstu tvö árin störfuðum við með Blátt áfram samtökunum og núna erum við með Pieta samtökunum að safna pening fyrir þau,“ segir Gylfi en hópurinn hefur á hverju sumri farið hringinn í kringum landið og selt barmmerki sín.
Málefni sem snertir alla
Að sögn Gylfa ákvað vinahópurinn að stofna samtökin eftir að einn þeirra fór að spá í að fara hringinn á einum degi en það hafi hópnum þótt frekar tilgangslaust. „Þannig við fórum svona að ræða hlutina og kasta hugmyndum á milli okkar, hvað við gætum gert skemmtilegt, og þá í rauninni kom upp þessi hugmynd,“ segir Gylfi og var nafnið Toy Run Iceland ákveðið í kjölfar þess en Toy Run starfar í fjölmörgum öðrum löndum sem góðgerðasamtök.
„Við höfum bara fundið fyrir ótrúlegum velvilja þegar við erum að stússast í þessu því að því miður þá virðist þetta snerta nánast alla, einhver hefur misst einhvern nákominn sér eða einhvern sem hann þekkir,“ segir Gylfi en hann segir málefnið snerta hópinn sem stendur að baki Toy Run persónulega.

Halda viðburð til styrktar Pieta næsta sunnudag
Í desember á síðasta ári afhenti hópurinn Pieta samtökunum eina milljón króna sem safnaðist yfir árið frá sölu barmmerkja, frjálsra framlaga og styrkja frá fyrirtækjum. „Við erum svona bæði að safna peningum og kynna samtökin,“ segir Gylfi og bætir við að markmið Toy Run sé helst að veita karlmönnum á aldinum 18 til 35 ára tækifæri til að fræðast um Píeta samtökin sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða.