„Við erum bara hópur af vinum sem hafa gaman að því að ferðast á mótor­hjólum og á­kváðum að fara út í það að láta gott af okkur leiða meðan við vorum að gera það sem okkur þótti skemmti­legast,“ segir Gylfi Hauks­son, for­svars­maður góð­gerða­sam­takanna Toy Run Iceland, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Á hverju ári eru fram­leidd sér­stök barm­merki fyrir Toy Run Iceland en sam­tökin voru stofnuð fyrir fjórum árum síðan. „Fyrstu tvö árin störfuðum við með Blátt á­fram sam­tökunum og núna erum við með Pieta sam­tökunum að safna pening fyrir þau,“ segir Gylfi en hópurinn hefur á hverju sumri farið hringinn í kringum landið og selt barm­merki sín.

Mál­efni sem snertir alla

Að sögn Gylfa á­kvað vina­hópurinn að stofna sam­tökin eftir að einn þeirra fór að spá í að fara hringinn á einum degi en það hafi hópnum þótt frekar til­gangs­laust. „Þannig við fórum svona að ræða hlutina og kasta hug­myndum á milli okkar, hvað við gætum gert skemmti­legt, og þá í rauninni kom upp þessi hug­mynd,“ segir Gylfi og var nafnið Toy Run Iceland á­kveðið í kjöl­far þess en Toy Run starfar í fjöl­mörgum öðrum löndum sem góð­gerða­sam­tök.

„Við höfum bara fundið fyrir ó­trú­legum vel­vilja þegar við erum að stússast í þessu því að því miður þá virðist þetta snerta nánast alla, ein­hver hefur misst ein­hvern ná­kominn sér eða ein­hvern sem hann þekkir,“ segir Gylfi en hann segir mál­efnið snerta hópinn sem stendur að baki Toy Run per­sónu­lega.

Hópurinn fer ár hvert hringið í kringum landið að selja barmmerki sín.
Mynd/Toy Run Iceland

Halda við­burð til styrktar Pieta næsta sunnu­dag

Í desember á síðasta ári af­henti hópurinn Pieta sam­tökunum eina milljón króna sem safnaðist yfir árið frá sölu barm­merkja, frjálsra fram­laga og styrkja frá fyrir­tækjum. „Við erum svona bæði að safna peningum og kynna sam­tökin,“ segir Gylfi og bætir við að mark­mið Toy Run sé helst að veita karl­mönnum á aldinum 18 til 35 ára tæki­færi til að fræðast um Píeta sam­tökin sem sinna for­varnar­starfi gegn sjálfs­vígum og sjálfs­skaða.

Við þökkum ToyRun Iceland og þeirra stuðningsfólki innilega fyrir stuðninginn og frábært samstarf á liðnu ári. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við ToyRun Iceland á þessu ári. :)

Posted by Píeta samtökin, sjálfsvígsforvarnarsamtök on Thursday, January 3, 2019