Hallgrímur Helgason opnar sýninguna Hópmyndir af sjálfi í Listamönnum gallerí á Skúlagötu í dag, laugardag, klukkan 16.00.
Sýningin samanstendur af nýlegum málverkum og teikningum eftir Hallgrím sem eiga það allar sameiginlegt að vera eins konar sjálfsmyndir. Ekki er þó um hefðbundnar portrettmyndir að ræða heldur sýna verkin þá mismunandi karaktera sem búa innra með listamanninum og eru því margfaldar sjálfsmyndir, eins og titillinn „Hópmyndir af sjálfi“ vísar í.
„Ég held nú að allir geymi alls konar karaktera og menn eru sérstaklega nú á tímum í alls konar hlutverkum, maður er ábyrgur faðir eina stundina og svo grallari þá næstu. Ég hef lengi glímt við þetta, ég er náttúrlega bæði myndlistarmaður og rithöfundur og það eru stundum árekstrar og sambúðin hefur ekki alltaf gengið vel. Ég hef svona þurft að venjast henni og kannski er það það sem er kveikjan að þessari sýningu,“ segir Hallgrímur.
Var það ekki einmitt bandaríska skáldið Walt Whitman sem sagði „I contain multitudes“ eða „Ég rúma mannfjölda“?
„Jú, svo er líka mjög skemmtileg tilvitnun í Proust sem mér var bent á þar sem hann segir: „Ég er ekki einn heldur stöðugur straumur alls konar karaktera.“

Spurður um hverja af sínum fjölmörgu karakterum hann hafi dregið fram á málverkunum nefnir Hallgrímur meðal annars föðurinn, listamanninn, rithöfundinn og baráttumanninn.
„Það er þarna alla vega á einni mynd einhver gamall pólitískur baráttuhundur, orðinn eineygður og illa farinn. En ég byrja bara með tóman striga og svo sé ég til hvað kemur og reyni að vera opinn fyrir öllu. Svo kannski eftir á setur maður penna í hönd á einhverjum karakter og pensil í hönd annars. Annars er það oft skemmtilegast þegar maður veit ekki alveg hvaða karakter þetta er, þetta er bara eitthvað sem býr innra með manni og fyrst það kom á strigann þá hlýtur það að vera hluti af mér,“ segir Hallgrímur.
Hallgrímur starfar jöfnum höndum sem rithöfundur og myndlistarmaður og vinnur nú að framhaldi á hinum sívinsælu síldarævintýrisbókum sínum, Sextíu kíló af sólskini og Sextíu kíló af kjaftshöggum, en hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir hvora um sig.
„Það er svona meiri pressa í bókmenntabransanum að koma með næstu bók. Ég er sem sagt að vinna í þriðju bindinu af þessum Sextíu kílóa þríleik. Þetta er allt skemmtilegt. Það er voða gaman að vera listamaður og geta gert allan fjandann,“ segir Hallgrímur.