Fyrrum sjónvarpsstjarnan Katie Hopkins heldur gagnrýni sinni á Meghan Markle áfram og kallar hana mesta hræsnara sögunnar. Hún fór afar ófögrum orðum um hertogaynjuna í ástralskri útgáfu sjónvarpsþáttarins 60 Minutes, þar sem hún segir hana til að mynda klæða sig illa. Meghan hefur sagt ummæli Hopkins andstyggileg og ógeðsleg.

Á dögunum birtist klippa úr þættinum umrædda, sem er enn ekki kominn út en mun fjalla um álit fólks á Meghan. Þar er Hopkins einn viðmælenda en í klippunni má heyra hana segja að Meghan sé með ljótan fatastíl og að hún sé mesti hræsnari í heimi. Þá kallar hún eftir því að Meghan afsali sér nafnbót sinni sem hertogaynja.

Netverjar komu þá margir hverjir Meghan til varnar og gagnrýndu orð Hopkins. Hún hefur nú svarað fyrir sig en í samtali við fréttastofu Mirror sagði hún breska skattgreiðendur vera þreytta á hræsni Meghan. „Hún prédikar þessa umhverfisvitleysu við alla en ferðast svo sjálf með einkaþotu. Svo krefst hún næðis á meðan hún selur frægð sína á samfélagsmiðlum,“ sagði Hopkins. Harry og Meghan voru harðlega gagnrýnd í síðasta mánuði fyrir að fara í fjögur einkaflug á 11 dögum í lúxusfríi sínu.

„Það eru margir að hugsa þetta en ég er að segja þetta,“ hélt hún áfram. „Það er kominn tími til að einhver standi uppi í hárinu á henni. Harry var eitt sinn skemmtilegur. Nú er hann svipað skemmtilegur og tengdamóðir mín, sem er látin.“