Það er tvennt ólíkt að hjóla í hópi eða einn. Þá ber maður ábyrgð á sjálfum sér en líka þeim sem eru í kringum mann og þarf að gæta fyllsta öryggis,“ segir Ása sem leiðbeinir í sumar á námskeiðum sem haldin eru á vegum Sjóvár. Þar er farið yfir öryggisatriði sem hjólreiðafólk þarf að hafa á hreinu í keppnum og samgönguhjólreiðum.

„Nú er orðið æ vinsælla að taka þátt í keppnishjólreiðum en margir sem skrá sig til þátttöku hafa litla sem enga reynslu af því að hjóla í hópi. Til að tryggja öryggi sitt og annarra í keppnum þarf því að læra hvernig á að bera sig að og gott er að byrja í minni keppnum fyrst og kynna sér vel reglur í viðkomandi keppni,“ segir Ása.

Fyrsta námskeiðið fór fram um síðustu helgi en þar fóru Ása og Þorvaldur Daníelsson, oft kenndur við Hjólakraft, yfir helstu öryggisatriði þegar margir hjóla saman.

„Það er að mörgu að huga. Bendingar og önnur samskipti þarf að læra, að geta látið vita af holum, beygjum, glerbrotum og öðrum hindrunum á leiðinni. Þá er mikilvægt að staðsetja sig rétt í byrjun, hafa allan búnað í lagi, ekkert laust og ekkert í eyrunum. Einnig þarf að halda góðu jafnvægi, hjóla jafnt og bremsa ekki snögglega, geta sleppt hönd af stýri og hætta ekki skyndilega að hjóla, sem getur hæglega valdið slysi,“ útskýrir Ása.

Brýnt að öðlast rétta færni

Ása Guðný tók fyrst þátt í keppnishjólreiðum í Bandaríkjunum árið 2003 en árið 2007 á Íslandi.

„Þótt ég hafi verið lengi að er ég enn að læra. Framan af voru hér fáar keppnir og litlir hópar. Nú er aukningin orðin mikil og kröfurnar meiri, sem betur fer. Sportið er nýtt hér heima og aðstæður aðrar en víðast hvar ytra og margt sem þarf að læra og ber að varast.“

Vegna aukinna almenningshjólreiða og vankunnáttu í hóphjólreiðum hafi slys aukist.

„Fólk í góðu hjólaformi þarf líka að öðlast færni í að hjóla í hóp,“ segir Ása og hvetur hjólreiðafólk sem ætlar til keppni að mæta á útiæfingar hjá hjólreiðafélögum.

„Til að æfa sig að hjóla á götunni og vita hvernig á að bera sig að í umferðinni. Allt snýst það um tillitssemi og aðgát til að forða slysum á sjálfum sér og öðrum. Í umferðinni er maður berskjaldaður og þarf að vera vel vakandi, kunnandi á aðstæður og láta vita vel af sér. Oftast heldur maður sig hægra megin götunnar en í ýmsum aðstæðum er maður öruggari úti á miðri akrein til að geta brugðist við bílaumferð inn á götuna til hægri og bílum sem bakka út úr bílastæðum eða þeim sem verið er að opna,“ útskýrir Ása.

Hún hefur margsinnis hjólað ein um þjóðvegi landsins þar sem bílar með tengivagna hafa tekið fram úr en fært sig aftur inn á sína akrein áður en þeir eru komnir að fullu fram hjá henni.

„Tillitssemi er lykilatriði hjá öllum í umferðinni, hvort sem þeir eru akandi, hjólandi eða gangandi, og hún er sérstaklega mikilvæg þar sem umferð er hröð eins og úti á þjóðvegum. Því vantar meiri fræðslu til ökumanna gagnvart hjólreiðafólki. Ökumenn stórra ökutækja virðast ekki alltaf gera sér grein fyrir hversu óþægilegt það er að fá þá nálægt sér og of margir bílstjórar vita ekki hvernig bregðast á við hjólandi umferð. Úr þessu þarf að bæta því hjólreiðar fara síst minnkandi og eru komnar til að vera. Ekki síst samgönguhjólreiðar sem eru mikilvægt skref í að minnka kolefnisfótspor okkar. Því verðum við öll að vera vel vakandi, taka tillit til náungans og sýna hvert öðru virðingu.“

Á sama hátt þurfi hjólreiðafólk að kunna sig gagnvart gangandi vegfarendum.

„Við getum notað sameiginlega hjólastíga til að komast á hjólaæfingar og rúlla þá rólega um en ef við ætlum að hjóla hratt eigum við skilyrðislaust heima á götunni.”

Ekki plássfrek heldur örugg

Ása er í Hjólreiðafélagi Reykjavíkur sem líkt og fleiri hjólreiðafélög bjóða æfingar fyrir almenning.

„Ef ætlunin er að stunda hóp- eða keppnishjólreiðar er brýnt að mæta reglulega á æfingar. Við höfum ekki mikil tækifæri til æfinga annars. Þá er gott að fá leiðbeiningar frá þjálfurum sem þekkja vel til eða fara fyrst á námskeið eins og hjá Sjóvá. Í hóphjólreiðum er alltaf hjólað í þvögu og til þess eru ýmsar leiðir. Oft hjólar fólk hlið við hlið til að verjast hliðarvindi og þá gæti litið út fyrir að við séum plássfrek en ökumenn þurfa að átta sig á að oftast er það gert af gildum öryggisástæðum.“