Fjöllistakonan Margrét Erla Maack á von á barni ásamt sambýlismanni sínum Tómasi Steindórssyni í lok september en þar sem Margrét Erla er verktaki duga greiðslur úr fæðingarorlofssjóði ekki til og hún tók til sinna eigin ráða.

Margrét Erla hefur undanfarin ár starfað sem skemmtikraftur og danskennari og segir frá því í stöðuuppfærslu á Facebook að hún hafi allt frá því að hún vissi að von væri á barni reynt að fá svör frá fæðingarorlofssjóði varðandi rétt hennar til greiðslna. Hún falli milli stafs og hurðar í útreikningum þeirra þar sem hún sé bæði sjálfstætt starfandi en stundum launamanneskja.

En það styttist í erfingjann og Margrét Erla deyr ekki ráðalaus heldur setti upp söfnunina Fæðingarorlof fyrir Margréti Maack á Karolina Fund og býður þar upp á allt frá jólakveðju frá fjölskyldunni að veislustjórn á útsöluverði. Hún segir tilgang söfnunarinnar tvíþættan, að gera henni kleift að taka lágmarks fæðingarorlof með dóttur sinni og jafnframt vekja athygli á flókinni stöðu þeirra sem ekki eru í fastri vinnu.

Margrét Erla býður upp á danstíma, veislustjórn og skemmtiatriði á útsöluverði til að fjármagna fæðingarorlofið sitt. Fréttablaðið/Ernir

Grínið endaði sem alvara

Margrét Erla birti eftirfarandi stöðuuppfærslu á Facebook í morgun:

Undanfarna mánuði hef ég tjáð mig um fæðingarorlofssjóð og óskýr svör sem ég fæ þaðan. Nú eru um tvær vikur í okkar konu og ég hef enn ekki fengið konkret svör um hvaða tímabil koma til útreikninga - en eitt veit ég: Sama hvernig það er reiknað fell ég milli stafs og hurðar vegna þess að ég er stundum launamanneskja í stuttum verkefnum og stundum sjáfstætt starfandi. Ég hef hent því fram í gríni að hópfjármagna einfaldlega orlofið mitt og eftir því sem ég grínast meira og meira með það varð það alltaf betri og betri hugmynd. Svo, kæru vinir: Gjörið svo vel. Danstímar, skemmtiatriði og veislustjórn á útsöluverði og verður framið að orlofi loknu.

Við fjölskyldan þökkum allan stuðning og deilingar, og vonumst til þess að söfnunin veki athygli á málinu.

Hér er svo slóðin á söfnunina en þar eru sannarlega fjölbreyttir möguleikar í boði fyrir þá sem vilja styrkja fjölskylduna:

https://www.karolinafund.com/project/view/2571