Í miðjum heimsfaraldri árið 2020 byggðu þau sér pergólupall og útieldhús sem Þórdís Lóa notar óspart og segir fátt toppa það að grilla utandyra og njóta matar undir berum himni. Hún aðhyllist slow food lífsstíl og segir að áhuginn á útieldhúsi hafi sennilega fæðst út frá alls kyns tilraunamennsku tengt slow food.

Þórdís Lóa, sem ávallt er kölluð Lóa, er að eigin sögn þessi dæmigerði úthverfabúi. „Ég er alin upp í Breiðholtinu, gekk í Fjölbrautaskólann þar og eftir að hafa farið á smá heimshornaflakk á skólaárunum og búið í Ekvador og New Orleans flutti ég aftur í Breiðholtið og þaðan yfir í Árbæinn þar sem ég bý enn. Mitt heimasvæði er útivistarsvæðið hér í kring. Fyrir nokkrum árum tókum við okkur til og erum nú líka skógarbændur í Þingeyjarsýslu. Ég veiði silung, lax, gæs og hreindýr og vinn matinn sjálf með mínu besta fólki,“ segir Lóa.

Við tókum okkur til fyrir tíu árum og byggðum lítið garðhús þar sem við ræktum hindber og jarðarber ásamt því að hafa þar vinnuaðstöðu fyrir garðvinnuna. Eftir að hafa notið þess í tíu ár ákváðum við að nú væri kominn tími á útieldhús og pergólupall.

Við vildum hafa eldhúsið sveitó og heimilislegt þar sem húsið okkar er gamalt og hér er ekkert hornrétt, segir Lóa.

Hönnuðu sitt eigið útieldhús

„Við vildum lengja sumarið og búa okkur til góða aðstöðu til þess, svo vildum við hafa eldhúsið sveitó og heimilislegt þar sem húsið okkar er gamalt og hér er ekkert hornrétt,“ segir Lóa og hlær.

Lóa segir að hugmyndin að útliti útieldhússins hafi fæðst gegnum Google og Pinterest. „Það fæddist bara í gegnum almennt Google og Pinterest, við vildum ekki vera að flækja þetta of mikið fyrir okkur, ákváðum bara að taka þetta á gamla góða slagorðinu „just do it“.

Matseldin hjá okkur frá því í maí flyst meira og minna út á pall og út í útieldhús og garð og þar erum við yfir allt sumarið, það er alltaf gott veður í Árbænum, eða næstum því allavega, þannig að við notum aðstöðuna mikið allt sumarið. Garðurinn, pergólupallurinn, eldhúsið og litla garðhúsið okkar lengir sumarið um tvo mánuði að minnsta kosti sem eru algjörlega frábær lífsgæði.“

Grilluð humarpitsa í uppáhaldi

„Ég er mikill grillari, elska að prófa alls kyns á grillið og þessi misserin er uppáhalds að grilla humarpitsu og silunginn eða laxinn sem ég veiði.“

Við fengum Lóu til að gefa lesendum uppskriftina að hennar uppáhaldshumarpitsu og svipta burt leyndardómnum að baki pitsunni. „Berglind Ólafsdóttir, æskuvinkona mín, er mikill matargúrú sem heldur úti matarblogginu kryddogkrasir.com og ég nýt þess að liggja yfir uppskriftum frá henni og prófa mig áfram. Einu sinni sem oftar kom hún norður til okkar í sveitina í Þingeyjarsveit og grillaði þessa dásamlegu humarpitsu sem hefur verið í uppáhaldi síðan.“

Lóa segist oft kaupa súrdeigspitsudeig sem kemur sér vel ef tímann skortir til að búa til pitsubotninn enda gott framboð til í matvöruverslunum eins og Bónus.

Pergólupallurinn nýtist vel og við hvert tækifæri sem gefst er snædd utandyra.

Humarpitsan hennar Berglindar

Botninn

Dugar í 3-4 pitsur sem eru u.þ.b. 9 tommur hver.

2 tsk. ger

Örlítið hunang

1 bolli volgt vatn

4 bollar hveiti – oft nota ég 2 bolla gott brauðhveiti og 2 bolla af hörðu hveiti eða Durum hveiti

1 tsk. salt

1 msk. ólífuolía

Byrjið á því leysa gerið upp í volgu vatni með hunangi, þar til það byrjar að freyða, þetta ferli tekur um 10-15 mínútur. Blandið saman hveiti, salti og olíu og hellið gerblöndunni (eða vatni, geri og hunangi) saman í skál og hnoðið vel saman eða þar til deigið hefur fengið góða áferð. Hægt er að hnoða deigið í hrærivél með hnoðunarkrók, annars bara í höndunum. Leyfið deiginu að hefast í skál undir klút í 30-120 mínútur +/- þann tíma þið hafið til þess. Deigið þarf að hnoða aftur í smá stund þegar það hefur fengið að hvíla og lyfta sér eins og tími og aðstæður leyfa. Skiptið deiginu í 3-4 parta og fletjið út.

Þegar pitsan er grilluð á útigrilli eins og hér er gert, er botninum skellt á grill-pitsupönnu áður en áleggið er sett á botninn, pannan sett á funheitt grillið og grillinu lokað í nokkrar mínútur. Þá er botninum snúið við á pönnunni og nú er tímabært að raða álegginu. á.

Humarálegg

á u.þ.b. 3 botna

Hvítlauksolía (hvítlaukur kraminn og skorinn smátt, settur út í góða ólífuolíu)

Rifinn ostur eftir smekk

Ferskur mozzarellaostur skorinn í smáa bita eftir smekk

Ólífuolía

Smjör

Sítróna

6 hvítlauksgeirar, marðir undir hnífsblaði og saxaðir smátt

500-600 g humar, skelflettur

Salt

Pipar, nýmalaður

Steinselja, söxuð

Blöð af morgunfrú (má sleppa)

Takið pitsupönnuna af grillinu og snúið botninum við. Smyrjið með hvítlauksolíu og stráið rifnum osti yfir botninn, ekki setja of mikinn ost á þessu stigi. Grillið í nokkrar mínútur. Opnið þá grillið og bætið ferskum mozzarellaosti á botninn, hann þarf aðeins styttri tíma til að bráðna heldur en rifni osturinn og er því settur aðeins síðar á botninn.

Á meðan pitsubotninn er að grillast er smjör með svolítilli ólífuolíu brætt á pönnu, 2 vel saxaðir og marðir hvítlauksgeirar settir út í brætt smjörið og leyft aðeins að hitna, þá er 1/3 af humrinum bætt á pönnuna og steikt í smá stund, gætið þess að ofsteikja humarinn ekki, betra er að hafa hann aðeins of lítið steiktan. Kreistið u.þ.b. 1 msk. safa úr sítrónu út á pönnuna og saltið og piprið.

Raðið humrinum á pitsubotninn sem nú er nánast tilbúinn, hellið hæfilegu magni af sítrónu-smjörblöndunni af pönnunni yfir pitsuna og lokið grillinu í eina mínútu eða svo.

Stráið saxaðri steinselju og blöðum af morgunfrú yfir pitsuna og berið fram og njótið. ■

Grilluð humarpitsa er í miklu uppáhaldi hjá Lóu og stemningin við að grilla hana úti er ólýsanleg.
Sveitarómantíkin svífur yfir heimili Lóu í Árbænum.