Það vakti mikla at­hygli fyrir nokkrum vikum þegar Bónus kynnti nýjan og endur­hannaðan Bónus­grís. Sitt sýndist þó hverjum um nýja út­litið og um tíma logaði netið hrein­lega af við­brögðum fólks sem var síður en svo á­nægt með út­lits­breytinguna.

Hönnuður upp­runa­lega Bónus­gríssins, Edith Ran­dy Ás­geirs­dóttir, kom fram í við­tali í Lestinni á Rás 1 þar sem hún lýsti upp­runa þessa þjóð­þekkta vöru­merkis en hún vildi þó ekki tjá sig um nýja grísinn.

„Ég er þakk­lát fyrir mína ást á þessu og söguna sem er á bak við þetta. Mér finnst ekki mitt að tala um nýja grísinn, finnst frekar að aðrir eigi að segja en ég,“ segir Ran­dy í við­tali við Kristján Guð­jóns­son.

Minnist Jóhannesar með hlý­hug

Ran­dy segist hafa þekkt Jóhannes Jóns­son, stofnanda Bónus, áður en hann setti verslana­keðjuna á fót og minnist hans hlý­lega en Jóhannes lést árið 2013.

„Hann var alveg ein­stakur maður, rosa­lega kraft­mikill og ríkur af orku og því sem þarf til að gera það sem hann gerði,“ segir hún.

Ran­dy hafði á þeim tíma stofnað aug­lýsinga- og skilta­gerðina Land­list með eigin­manni sínum og réð Jóhannes hana til að hanna og mála skilti fyrir nýju lág­vöru­verðs­verslun sína.

Jóhannes Jónsson, stofnandi Bónus, ásamt syni sínum Jóni Ásgeiri árið 1997.
Fréttablaðið/Einar Ólason

Fékk á til­finninguna að þau grísinn væru vinir

Hug­myndin var að á lógói Bónus myndi vera ein­hvers konar greiðslu­kort en Ran­dy sagðist ekki hafa talið að það myndi ganga og byrjaði því að leita að öðru tákni Hún hafði tekið eftir því í dönskum blöðum voru grísir og spari­baukar oft notaðir til að aug­lýsa til­boð sem tákn fyrir sparnað.

„Svo ég hugsaði bara úp­sídeisí, ég hlýt að geta notað bara spari­bauk í staðinn fyrir þetta kredit­korta­stand,“ segir Ran­dy. Hún byrjaði því að hanna grísinn og gekk það vonum framar.

„Ég fékk á til­finninguna að við værum tengd og við værum næstum vinir. Það kom straumur frá honum,“ segir Ran­dy um grísinn.

Stimplaði sig inn í þjóðar­sálina

Ran­dy hannaði grísinn með­vitað þannig að hann væri ó­full­kominn því hún taldi að fólkk myndi tengja við hann sem vina­legan en ör­lítið gallaðan. Það var heldur betur rétt hjá henni en Bónus­grísinn stimplaði sig beint í þjóðar­sál Ís­lendinga og hefur verið eitt ást­sælasta vöru­merki síðustu þriggja ára­tuga. Hún segist vera hreykin af grísnum og við­tökum lands­manna við honum.

„Ég er hreykin af því og finnst yndis­legt að eiga svona með öðrum. Þetta hefur bara verið fal­legt og gaman,“ segir Ran­dy.

Þá finnst henni sér­stak­lega gaman þegar hún verslar í Bónus og sér lítil börn dást að grísnum og benda á hann.

„Ég veit ekki hvort fólk er annars mikið að brjóta heilann um þetta,“ segir Ran­dy.