Gestir tískuvikunnar eru vanari því að fylgjast með frægum fyrirsætum á borð við Hadid-systurnar en teiknimyndapersónum. Balenciaga hafði útbúið móttökuna eins og um frumsýningu í Hollywood væri að ræða. Rauður dregill og rauðir veggir blöstu við gestum og módelum sem klæddust sumarfatnaði Balenciaga. Fyrirsæturnar voru myndaðar um leið og þær gengu inn og sýndar á stórum skjá í salnum. Það var því ekki hefðbundin sviðsframkoma.

Fyrirtækið hafði látið gera tíu mínútna Simpson-mynd þar sem Balenciaga var í aðalhlutverkinu með fjölskyldunni í Springfield. Í myndinni fær Marge Simpson að upplifa draum sinn um að klæðast Balenciaga. Ekki versnar það þegar íbúum í Springfield er boðið til Parísar til að taka þátt í tískusýningu fyrirtækisins. Við þekkjum persónurnar úr teiknimyndinni þegar þær koma fram á sviðið hver af annarri í glæsilegum klæðnaði frá Balenciaga. Áhorfendur eru ekki af verri endanum, Kim Kardashian, Kanye West og Justin Bieber. Að auki má sjá Önnu Wintour, ritstjóra tískutímaritsins Vogue, sem lætur sig yfirleitt ekki vanta á tískusýningar þekktustu tískuhönnuða. Hönnuður Balenciaga, Demna Gvasalia, sést einnig í myndinni.

Simpsonfjölskylduna þekkja allir enda hefur hún verið á skjánum í 34 ár. Hönnuðurinn Gvasalia mun hafa verið einlægur aðdáandi allt frá barnsaldri en hann er ættaður frá fyrrum Sovétríkjunum. Þetta mun ekki vera í fyrsta skipti sem Gvasalia fer aðrar og nýjar leiðir til að kynna hönnun sína.

Simpson-myndin er stórskemmtileg og það má horfa á hana hér að neðan.

Lísa í fallegum rauðum síðkjól.
Ritstjóri Vogue, Anne Wintour, er að sjálfsögðu með í „showinu“.
Rapparinn Cardi B klæðist hér kápu og hatti frá Balenciaga. Kápan er skreytt með úrklippum blaða. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Ritstjórinn Anna Wintour mætti líka í eigin persónu í kápu frá Balenciaga.
Fyrirsætan Naomi Campell í dragt frá Balenciaga úr sumaratískunni.
Fyrirsætur á rauða dreglinum í sumartísku Balenciaga fyrir 2022.