Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður knattspyrnufélags Selfoss sem sigraði Mjólkurbikarinn á laugardaginn, opnar sig um leiðina að bikarnum í samtali við Fréttablaðið í morgun. Hún var löng og ströng en Hólmfríður ákvað aðeins fimm dögum fyrir mót að taka þátt í fótboltanum í ár. Hún eignaðist son í fyrra og var ekki í góðu líkamlegu standi fyrir átök á vellinum.

„Fyrir ári síðan var ég rúmlega 100 kíló, nýbúin að fæða barn í heiminn og hafði ekki sparkað í bolta síðan árið 2017,“ sagði Hólmfríður. Hún skoraði fyrsta mark Selfoss í leiknum sem fór 2-1 fyrir Selfossi gegn KR. „Staðan er allt önnur á þessum tímapunkti og mér líður ofboðslega vel. Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að taka þátt í því að vinna fyrsta bikarmeistaratitilinn í sögu Selfoss.“

Selfoss vann Mjólkurbikarinn í fyrsta skipti síðasta laugardag.
FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Hún segir þá að allt hafi breyst eftir að hún eignaðist son sinn. „Það er yndisleg tilfinning að standa uppi sem bikarmeistari og sigurtilfinningin er enn sterkari eftir að ég varð móðir,“ segir hún. „Eftir að ég átti strákinn minn fyrir ári þá verða allir sigrar sætari og mér líður alveg frábærlega á þessari stundu.“

Hún hafði ekki komin nálægt fótbolta síðan hún varð ólétt og óviss um hvort hún myndi taka skóna upp á ný í sumar. Hún ákvað þó fimm dögum fyrir mót að vera með en forráðamönnum Selfoss tókst þá að hjálpa henni að finna neistann á nýjan leik. „Af þeim sökum er það ekki sjálfgefið að ég standi í þeim sporum að ég sé að fagna bikarmeistaratitli.“

En það er ekki auðvelt að vera nýbökuð móðir og sinna atvinnumennsku í fótbolta samhliða því. Liðsheild Selfoss er þó engu lík að hennar sögn og hjálpar félagið henni að búa þannig um hnútana að hún geti æft reglulega. „Eftir að ég varð móðir þá er það meira púsluspil fyrir mig að geta æft fótbolta. Það eru til að mynda stelpur úr 4. flokki sem passa Magnús á meðan ég er á æfingum og ég fæ alla þá aðstoð sem ég þarf til þess að geta sinnt fótboltanum eins vel og nokkur kostur er,“ segir Hólmfríður.

Hún mun þá skoða það í haust hvað hún geri á næsta keppnistímabili. Nú fer orkan hins vegar í að njóta titilsins og klára tímabilið í deildinni eins veg og hægt er.