„Þegar ég byrjaði að skoða þetta tók ég eftir því að allar sund­laugar eru svipað settar upp. Ein aðalsund­braut til að synda, og í kringum þær er mis­munandi hvort að séu heitir eða kaldir pottar,“ segir Unnar Ari Bald­vins­son, grafískur hönnuður, mynd­listar­maður og höfundur verksins. Hann segist hafa greint á­kveðið kerfi um leið, og í kjöl­farið séð fyrir sér verk­efnið.

Fleiri en hundrað laugar

Fyrst hafi hann fengið að mynda allar laugarnar og safnað þeim saman.

„Goog­le-maps myndir eru ekki nógu ná­kvæmar,“ út­skýrir hann. „Verk­efnið er í rauninni teikningar, prent­verk af öllum mann­byggðum sund­laugum á Ís­landi.“

Unnar Ari tekur þá fram að hann skoði ekki gömlu hlöðnu laugarnar, Bláa lónið eða Secret-lagoon. Þó gæti það verið skemmti­legt fram­hald á ein­hverjum tíma­punkti. Hann á­ætlar að 106 sund­laugar séu á landinu sem stendur. „Það er verið að efna til hönnunar­sam­keppni til að byggja nýja laug í Foss­voginum,“ segir hann, þannig að ljóst er að talan á eftir að hækka á næstu misserum.

Sund­laugar sem al­mennings­garðar

Unnar Ari segir teikningarnar mjög ein­faldar. „Ég er bara að skoða fletina sem eru með vatni. Ég er ekki að teikna inni­laugar eða renni­brautir eða gufu­klefana,“ segir hann.

„Kon­septið er að sund­laugar eru eins og al­mennings­garðar. Ég er að skoða plássið milli heitu pottanna og laugarinnar og sjá hvernig þessu er raðað upp.“

Að­spurður hvað hafi komið mest á ó­vart í ferlinu segir hann að fjöldi lauga hafi verið sláandi. „Það er ein laug á hverja 3.200 Ís­lendinga,“ segir hann. „Svo er líka það sem gerist þegar maður byrjar að safna þessu saman, maður sér hvað sund­laugar eru byggðar á mis­munandi stöðum.“ Til út­skýringar séu sund­laugar á lands­byggðinni gjarnan byggðar þar sem finna megi heitt vatn.

Að sögn Unnars Ara eru sund­laugarnar al­mennings­garðar Ís­lendinga. „Frá land­náms­öld hafa Ís­lendingar verið góðir í að nýta heita vatnið. Grafa holu til að safna saman af­falli af heitum læk, til dæmis.“

Sund­laugarnar eru svona hverfa- og lands­hluta-based. Svo­lítið eins og fót­bolta­lið

Hollusta við sína laug

Eftir­lætissund­laug Unnars Ara er Sel­tjarnar­nes­laug. „Ég er alinn upp á Nesinu og fór í skóla­sund og lærði að synda á Sel­tjarnar­nesi. Eftir að ég eignaðist börn þá varð ég hrifinn af sund­lauginni í Þor­láks­höfn,“ segir hann en tekur fram að hann hafi ekki teiknað þá laug í þessu verk­efni, í þetta sinn.

„Konan mín er alin upp í Vestur­bænum, hún elskar Vestur­bæjar­laugina,“ segir hann og nefnir at­vik þar sem parið hefur ein­hver skipti ekki náð sam­komu­lagi um í hvora laugina ætti að fara. Á endanum hafi hann farið í Sel­tjarnar­nes­laugina og hún í Vestur­bæjar­laugina. „Svo hittumst við bara heima,“ segir Unnar Ari og hlær.

„Sund­laugarnar eru svona hverfa- og lands­hluta-based. Svo­lítið eins og fót­bolta­lið,“ segir hann. „Fólk sem flytur eitt­hvert annað en kemur samt í gamla hverfið að fara í sund. Fólki þykir vænt um sína laug.“

Unnar Ari segist ekki fylgjast með fót­bolta og ekki halda með neinu liði, en hann geti tengt við hug­myndina í gegnum sund­laugarnar. „Það er svipað költ í kringum það.“

Saknaði sund­lauganna

Unnar Ari lærði í Flórens á Ítalíu og segir bú­setu í öðru landi hafa átt þátt í kveikjunni að verk­efninu. „Fólk sem býr er­lendis finnur tenginguna og saknar þess mikið að fara í sund. Ég lærði í Flórens á Ítalíu og það er inni í miðju landinu. Þar eru engar sund­laugar og þú sérð hvergi sjó. Þar er Four Sea­sons-hótel og eitt spa með einni ís­kaldri sund­braut,“ segir hann. „Það er ekki alveg sama kon­septið. Eftir að vera búinn að vera úti svona lengi var það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim að fara í Nes­laugina.“

Sýningin verður opnuð 4. maí í innri sal Bíó Para­dísar við Hverfis­götu. „Þar verða allar myndirnar sýndar saman. Ein laug á Flúðum sem er einn blár kubbur með einum rauðum punkti, sú mynd án sam­hengisins segir lítið. En heildin er stór partur af þessu. Þetta verður líka í fyrsta sinn sem ég sé allar myndirnar saman.“

Unnar Ari vinnur einnig að vef­verslun með­fram sýningunni. „Þá getur maður skoðað á netinu líka. En mér finnst stór partur af þessu að sjá allar myndirnar saman í einu rými.“