Það er þó ýmislegt girnilegt sem gaman er að bera fram með grillröndóttum kótilettusneiðum og bökuðum kartöflum. Ferskt salat með sinneps- og edikdressingu er alltaf gott með grilluðum mat. Sama gildir um tilbúið kartöflusalat eða hrásalat. Það má þó eyða smá aukatíma í að setja saman girnilegt meðlæti sem er bæði hollt fyrir kroppinn og gott fyrir bragðlaukana. Ekki er vera ef það er hægt að grilla það með.

Maísbaunir í salatið

Fátt er betra með grillmat en grillaðir maísstönglar. Að auki gerir sólgulur maísinn gæfumuninn í framsetningunni, enda er takmörkuð litafegurð í brúnu kjöti með hvítum majonessósum og -salötum.

Oft fylgir þó böggull skammrifi og í tilfelli maískólfa eiga gulu baunirnar það til að smjúga inn á milli tanna þess sem nagar kólfinn og losna ekki fyrr en tannþráðurinn hefur verið rækilega þræddur á milli hvers tannpars í enda kvölds. Grillaðan maís má þó eta með ýmsum öðrum leiðum en að fórna þurfi tannholdinu og sómir þessi gula baun, sem á þó fátt skylt með baunum, sér vel í ýmsum girnilegum salötum. Hægt er að nota hvort sem er ferska maískólfa eða frosna. En notirðu ferskan þarf að fletta hýðinu af stönglinum áður en hann er grillaður.

Innihaldsefni:

6 maísstönglar, grillaðir

1 græn paprika, niðurskorin

2 plómutómatar, niðurskornir

¼ saxaður rauðlaukur

½ búnt saxað ferskt kóríander

2 tsk. jómfrúarolía (eftir smekk)

½ kurlaður fetaostur (stykki, ekki í olíu)

Salt og pipar

Grillaðu maískólfana beint á grillinu, og ekki hika við að grilla þá nóg til að fá nokkra dökka bletti. Skerðu maísbaunirnar af kólfunum. Saxaðu grænmetið smátt, kurlaðu fetaostinn og blandaðu öllum innihaldsefnum saman í skál.

Svakalegir sveppir

Fylltir sveppir eru klassískir á grillið og eru til margar einfaldar uppskriftir með fljótgerðum fyllingum. Hér er þó ein sem sýnir að það má vel leyfa meðlætinu að skína í máltíðinni.

Uppskriftin er fyrir tvo portobellosveppi.

Fyllingin sómir sér vel með ýmist venjulegum hattsveppum eða portobellosveppum. Fréttablaðið/Getty

Innihaldsefni:

2 portobellosveppir eða 8 venjulegir sveppir, stilkar fjarlægðir

Um 2 tsk. olía alls

1 saxaður hvítlauksgeiri

½ saxaður laukur

1½ tsk. saxað ferskt óreganó

1 dl baby-spínatlauf

½ dl rifinn parmesanostur

¾ dl pankorasp

1 tsk. ítölsk kryddblanda

1½ tsk. balsamedik

Salt og pipar

Söxuð steinselja

Hitaðu um 1 teskeið af olíu á pönnu á miðlungshita. Léttbrúnaðu laukinn og hvítlaukinn. Bættu spínati og óreganói við og steiktu uns spínatið skreppur saman. Settu í skál með ostinum, panko-raspi, balsamediki, salti og pipar og blandaðu.

Smyrðu fyllingunni jafnt yfir sveppina og grillaðu í um 7 mínútur.