Rannsóknin var unnin við Stokkhólmsháskóla og á Karólínsku stofnuninni og þegar búið var að taka áhrifaþætti eins og kyn, líkamsþyngdarstuðul, reykingar, líkamlega virkni og vaktavinnu út úr dæminu sýndu niðurstöðurnar að þeir sem voru undir 65 ára aldri og sváfu fimm tíma eða skemur sjö daga vikunnar höfðu 65% hærri dánartíðni en þeir sem sváfu sex eða sjö tíma á hverri nóttu. En það var ekkert hærri dánartíðni hjá þeim sem bættu svefnleysi vinnuvikunnar upp með átta tíma svefni eða meira um helgar.

Torbjörn Åkerstedt, aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir að lengd svefns hafi greinileg áhrif á langlífi.

Stór og löng rannsókn

Rannsóknin var birt í tímariti svefnrannsókna (Journal of Sleep Research) sem er ritrýnt vísindatímarit sem Evrópska svefnrannsóknafélagið gefur út. Rannsóknin byggir á gögnum frá meira en 38 þúsund einstaklingum, sem var safnað í rannsókn á lífsstíl og heilsu árið 1997, en svo var líka fylgst með þátttakendum í allt að 13 ár eftir rannsóknina með því að fylgjast með skrá yfir þá sem létust.

Åkerstedt segir að rannsakendur hafi áður skoðað fylgnina milli lengdar svefns og dánartíðni en hafi einbeitt sér að svefni yfir vinnuvikuna. „Mig grunaði að niðurstöðurnar yrðu öðruvísi ef þú tækir svefn um helgar, eða á frídögum, með í reikninginn,“ segir hann.

Åkerstedt segir að ályktunin sem hann dragi af niðurstöðunum sé að svefn um helgar geti bætt upp skort á honum í vinnuvikunni, en rannsóknin hans sanni það þó ekki.

Aftur á móti gaf rannsóknin líka til kynna að fólk sem svaf átta tíma eða meira sjö daga vikunnar hefði 25% hærri dánartíðni en þeir sem sváfu bara sex til sjö tíma á nóttu.

Rannsakendur segja að tengslin milli svefnmynsturs og dánartíðni hverfi eftir 65 ára aldur og Åkerstedt telur að það sé kannski vegna þess að eldra fólk þurfi minni svefn og sofi einfaldlega nóg.

Segir ekkert um orsakir

Í rannsókninni var ekki skoðað hvert orsakasambandið gæti verið milli svefnmynsturs og dánartíðni. Þessi tölfræðilega fylgni gefur einhverjar vísbendingar þegar úrtakið er svona stórt, en rannsóknin segir okkur ekkert um hvers vegna það er hollt að sofa nóg og óhollt að sofa of lítið.

Åkerstedt gengur heldur ekki mjög langt í túlkun á niðurstöðunum. Hann segir bara að það sé mögulegt að lítill svefn sé óhollur og að það að sofa stöðugt mikið geti verið merki um undirliggjandi heilsufarsvandamál.

Rannsóknin hafði líka sínar takmarkanir, því þátttakendur voru bara spurðir út í svefnmynstur sitt einu sinni. En Stuart Peirson, sérfræðingur í líkamsklukkunni sem starfar við Oxford-háskóla, segir að hún gefi aðeins dýpri skilning á svefni en margar fyrri rannsóknir, sem hafa einfaldlega gefið til kynna að bæði mjög lítill og mjög mikill svefn væri óhollur. Hann segir að við þurfum að borga „svefnskuld“ ef við söfnun henni upp.

Niðurstöður þessarar rannsóknar stangast örlítið á við það sem taugavísindamaðurinn Matthew Walker, sem rannsakar svefn við Berkeley-háskóla í Kaliforníu, hefur sagt, en hann mælir með því að fólk sofi 7-9 klukkustundir á hverri nóttu.

En það er augljóst að góður svefn er nauðsynleg undirstaða góðrar heilsu og getur lengt lífið. Rannsóknum ber í það minnsta saman um að það sé hollt að sofa að lágmarki 6 tíma á hverri nóttu.