Sigríður Björk Bragadóttir, eða Sirrý eins og hún er yfirleitt kölluð, hefur byggt upp öflugt fræðslustarf fyrir áhugamenn um matseld og kræsingar ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Grendal Magnússyni, í Salt Eldhúsi og kann svo sannarlega að gleðja sína þegar kemur að klúbbakvöldum. Sirrý veit vel að með ljúffengum kræsingum verður samveran eftirminnilegri og gleðilegri, hægt er að snúa máltækinu „Maður er manns gaman“ við í „Matur er manns gaman“. Sirrý er matreiðslumaður og fyrrverandi ritstjóri Gestgjafans og annálaður sælkeri í áranna rás. Hér deilir Sirrý með lesendum nokkrum skotheldum uppskriftum sem eiga vel við á fallegum haust- og vetrarkvöldum.

Rauðrófu­hummus, grænbauna­hummus, gulróta-bauna­hummus, indverskt tómat-chutney og flatbrauð með smjöri – Katmer.

Rauðrófuhummus

300 g rauðrófur, afhýddar og skornar í bita

1 dós kjúklingabaunir

1 tsk. kumminduft

1 lítill hvítlauksgeiri

2 msk. tahini

1 msk. Pomegranate Molasses (má sleppa)

½ sítróna, safinn

Ofan á: granateplakjarnar

Setjið rauðrófurnar í bakka með álpappír, dreypið ólífuolíu yfir og saltið. Hyljið rófurnar með pappírnum og bakið þetta í 30-40 mínútur. Sigtið safann frá kjúklingabaununum og geymið safann. Látið mesta hitann rjúka úr þeim og setjið síðan í matvinnsluvél ásamt öllu í uppskriftinni. Maukið vel saman og bætið 2-3 matskeiðum af kjúklingasafanum í svo þið fáið mjúkt mauk. Setjið í skál og stráið granateplakjörnum yfir í lokin.

Grænbaunahummus

150 g frosnar grænar baunir, afþíddar

1 dós kjúklingabaunir

3 stilkar af ferskri myntu, bara blöð notuð

1 lítill hvítlauksgeiri

2 msk. tahini

1 sítróna, safi af henni

Salt eftir smekk

Ofan á:

50 g fetaostur

1 msk. ólífuolía

Hellið safanum af kjúklingabaununum og geymið hann. Setjið allt hráefni nema fetaost og olíu í matvinnsluvél og maukið vel. Bætið 2-3 matskeiðum af baunasafanum út í ef þarf til að fá mjúkt mauk. Smakkið til með salti. Setjið í skál og kurlið fetaost ofan á. Dreypið ólífuolíu ofan á í lokin.

Gulróta-baunahummus

500 g gulrætur, afhýddar ef þarf og sneiddar

3 msk. ólífuolía

½ appelsína, safinn

½ tsk. kumminfræ

½ tsk. kóríanderfræ

1 dós smjörbaunir (má líka nota skyr)

1 lítill hvítlauksgeiri

salt og sítrónusafi eftir smekk

Ofan á: 2 msk. dukkah

Hitið ofninn í 180°C (170 á blástur). Leggið bökunarpappír í botninn á ofnskúffu og setjið gulrætur, ólífuolíu , appelsínusafa og örlítið salt í hana. Bakið í 30 mínútur, látið kólna svolítið. Þurrristið kummin- og kóríanderfræ á pönnu og malið síðan í morteli eða kryddkvörn. Hellið safanum af baununum og geymið. Setjið nú allt (nema dukkah) í matvinnsluvél og maukið fínt. Bætið 2-3 matskeiðum af baunasafanum út í ef þarf til að fá mjúkt mauk. Setjið í skál og stráið dukkah og ef til vill örlítið af ólífuolíu ofan á.

Indverskt tómat-chutney

4 msk. olía

1 msk. kumminfræ

1 msk. svört sinnepsfræ

5 stk. indversk karrýlauf (fást frosin í Asíu-búðum, má sleppa)

6 stórir tómatar, saxaðir

1 msk. ferskt engifer

2 hvítlauksgeirar, saxaðir

½ tsk. túrmerikduft

2 græn chili, saxað, nota fræ með ef þið viljið hafa þetta sterkt

Setjið olíuna í pott og steikið kumminfræ, sinnepsfræ og karrýlauf þar til allt fer að ilma vel. Bætið þá öllu út í og látið sjóða góða stund saman. Setjið lok á pottinn og látið þetta malla í 15-20 mínútur, hrærið í annars lagið. Takið lokið af og ef blandan er vatnskennd sjóðið áfram í 5 mínútur í viðbót. Hellið í krukkur, þetta er magn í tvær meðalstórar krukkur, lokið strax.

Geymist í einn mánuð í ísskáp.

Flatbrauð með smjöri – Katmer

300 g hveiti

2 dl mjólk

1 tsk. salt

100 g smjör, mjúkt

Setjið hveiti, mjólk og salt í hrærivélaskál og hnoðið allt vel saman í samfellt deig. Breiðið klút yfir og látið bíða í 10 mínútur. Skiptið deiginu í 12 parta. Fletjið út köku í ca. 14-16 cm í þvermál. Penslið smjöri á kökuna og rúllið upp í þétta rúllu eins og pönnuköku. Rúllið lengjunni upp í snúð og rúllið aftur út í þunna köku, um það bil 10 cm. Steikið kökurnar á heitri pönnu þar til gullnar og fallegar. Það þarf ekki að nota feiti á pönnuna frekar en vill, ágætt að þurrsteikja þær.