María Gomez heldur úti matarblogginu Paz.is sem ætlað er nautnaseggjum sem hafa gaman af því að baka og elda góðan mat án mikillar fyrirhafnar, en flestar uppskriftirnar eru í einfaldari kantinum. María er mikill sælkeri og segist alltaf hafa haft gaman af því að reyna fyrir sér í eldhúsinu og fáum við að birta úrval uppskrifta úr fórum hennar.

María Gomez birtir reglulega girnilega uppskriftir á vefsíðu sinni paz.is.

Hollir kjúklinganaggar

3 kjúklingabringur

3 egg

1 bolli fínt rifinn parmesan ostur (rífið sjálf með smáu rifjárni ekki kaupa þennan í dollunni)

3/4 bolli Panko brauðrasp. Panko er japanskt brauðrasp. Ekki nota annað rasp í staðinn því það kemur ekki eins út.

Hveiti

salt

pipar

Naggarnir eru vinsælir hjá börnum jafnt sem fullorðnum.

Skerið bringurnar í bita á stærð við hefðbundna nagga.

Setjið plastfilmu yfir bitana og lemjið á þá með pönnu eitt högg svo þeir fletjist smá út (ekki of mikið).

Setjið egg í skál og saltið og piprið ögn.

Setjið hveiti í aðra skál.

Og svo Panko og Parmesan í þriðju skálina (blandið því vel saman).

Setjið hvern kjúklingabita fyrst í hveiti, svo egg og síðast í parmesan pankoið.

Passið að hrista umfram hveiti og umfram egg vel af áður en dýft er í pankoið.

Raðið á ofnplötu með bökunarpappír.

Bakist svo á 210-220 C° blæstri í 20 mínútur eða þar til gyllinbrúnir.

Berist fram með pítsusósu eða BBQ sósu til að dýfa í.