Hollendingar almennt vinna ekki langa vinnudaga heldur verja tíma sínum frekar í frístundir jafnt sem svefn og afslöppun. Þetta er niðurstaða Better Life Index sem er mælikvarði OECD á það hvernig íbúum hvers lands fyrir sig tekst að halda jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

Holland fékk einkunnina 9.5 af 10 en rétt á eftir Hollendingum voru Ítalir með 9.4 og þarnæst Danmörk með einkunnina 9. Í neðstu sætunum af 40 mældum löndum voru Kólumbía og Mexíkó.

Eftirfarandi lönd státa, í þessari röð, af besta jafnvæginu milli vinnu og einkalífs samkvæmt niðurstöðum frá OECD árið 2019.

  • Holland
  • Ítalía
  • Danmörk
  • Spánn
  • Frakkland
  • Litháen
  • Noregur
  • Belgía
  • Þýskaland
  • Svíþjóð
Langir vinnudagar geta komið niður á heilsu og fjölskyldulífi. Mynd/Getty

Aðeins 0.4 % þeirra Hollendinga sem svöruðu unnu „mjög langa“ vinnudaga en það eru yfir 50 klukkustundir á viku. Heilt yfir þegar öll löndin voru talin saman voru það 11% svarenda sem skiluðu svo mörgum klukkustundum.

Minni streita og stress

Langir vinnudagar geta komið niður á heilsu og haft áhrif á öryggi auk þess sem líklegt er að þeir auki á streitu. Svo gefur auga leið að með meiri vinnu gefst minni tími til að sinna annars konar áhugamálum og slökun.

Könnunin mældi einnig hversu löngum tíma fólk í fullu starfi ver í tómstundir o.s.frv. Þar tróndu Ítalir á toppnum með 16.5 klukkustundir vikulega en á eftir þeim komu Frakkland, Spánn og svo Danmörk.

Af þeim 40 löndum sem mæld voru, voru það aðeins Evrópulönd sem náðu inn á topp 10. Bandaríkin voru í 27. sæti en11% Bandaríkjamanna vinna mjög langa vinnudaga.

Bent var á að slæmt jafnvægi á milli vinnu og einkalífs komi oftast niður á fjölskyldulífinu og er tilmælum beint til ríkisstjórna að hvetja atvinnulífið til sveigjanleika og stuðnings í þessum efnum.