Holland stóð uppi sem sigurvegari Eurovision í kvöld með lagið Arcade í flutningi söngvarans Duncan Laurence. Þetta er í fimmta skipti sem Hollendingar sigra söngkeppnina.

Holland stóð uppi sem sigurvegari Eurovision í kvöld með lagið Arcade í flutningi Duncan Laurence. Lagið endaði með 492 stig, 27 stigum meira en Ítalía sem var í öðru sæti.

Úrslitin ættu ekki að koma mörgum á óvart en Holland hefur síðustu daga trónað á toppi allra veðbanka yfir líklegustu sigurvegara keppninnar með um 45% sigurlíkur.

Þetta er í fimmta skipti sem Hollendingar sigra söngkeppnina en síðast gerðist það árið 1975. Holland bætist nú í hóp þriggja annarra landa sem hafa unnið keppnina fimm sinnum en það hafa Lúxemborg, Frakkland og Bretland einnig gert.

Írland hefur oftast sigrað keppnina, alls sjö sinnum, á meðan Svíþjóð hefur unnið hana næstoftast, sex sinnum.

Hatari stóð sig með prýði og hafnaði í tíunda sæti. Þetta er aðeins í fjórða skiptið sem Ísland endar í einu af tíu efstu sætunum.