Reg Watson, höfundur hinna geysivinsælu sjónvarpsþátta Nágranna, eða Neigbours á ensku, lést í vikunni 93 ára að aldri. Eigendur þáttanna staðfestu þetta á föstudaginn.

„Allir hjá Nágrönnum eru sorgmæddir yfir fréttunum af andláti Reg Watsons,“ segir í tilkynningu á vefsíðu þáttanna. „Hann var frumkvöðull í sjónvarpsgerð, náði langt í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og í alla staði indæl manneskja til að starfa með.“

Watson fæddist í Ástralíu árið 1926 en flutti síðar til Bretlands þar sem hann starfaði við gerð sápuóperunnar Crossroads á sjöunda áratugnum. Hann vann við gerð þáttanna í heilan áratug áður en hann flutti aftur heim til Ástralíu þar sem hann fór að framleiða sápuóperur.

Hann varð svo heimsþekktur fyrir Nágranna sem þóttu nýjung í sápuóperuheiminum þar sem dregin var upp mun raunsærri mynd af lífi unglinga og foreldra þeirra. Fyrsta sería þeirra kom út árið 1985 en hún naut ekki tilætlaðra vinsælda og var ákveðið að hætta við að sýna þá á áströlsku stöðinni Sven Network.

Önnur áströlsk stöð keypti þá réttinn að þáttunum sem urðu von bráðar heimsþekktir en engir þættir hafa verið framleiddir jafn lengi í Ástralíu. Watson var árið 2010 veitt æðsta heiðursorða sem hægt er að hljóta frá ástralska ríkinu, sem samsvarar fálkaorðunni íslensku.