Ljóðskáldin Beinir Bergsson og Sofie Hermansen Eriksdatter koma fram á höfundakvöldi í Norræna húsinu í kvöld þar sem þau ræða skáldskap sinn. Bæði skáld eiga það sameiginlegt að fjalla um samtengingu náttúru, líkama og nautnar í lýrískum kveðskap.

Beinir Bergsson (f. 1997) er færeyskt ljóðskáld sem vakti athygli fyrir fyrstu bók sína Litli drengurinn og beinagrindin árið 2017. Önnur ljóðabók hans Sólgarðurinn kom út á þessu ári og er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í Sólgarðinum skrifar Beinir um persónulegan þroska og ástarlíf sitt í bland við texta um plöntur, mold og skordýr.

Sofie Hermansen Eriksdatter (f. 1986) er danskt ljóðskáld og búsett á Íslandi. Hún sendi nýlega frá sér sína fyrstu bók sem ber titilinn Lady Dawn synger vuggeviser (Lady Dawn syngur vögguvísur) þar sem hún skrifar um mörkin á milli sköpunarverka manns og náttúru. Í nóvember er von á annarri ljóðabók Sofie, sem ber titilinn Bedstemor Newton (Amma Newton).

Myndlíkingar og myndbreytingar á milli manna og náttúru eru umfjöllunarefni beggja skálda sem þau nota til að varpa fram ljóðrænum spurningum og vangaveltum um hinar fjölmörgu hliðar erótísks skáldskapar.

Umræðurnar fara fram á skandinavísku og stjórnandi höfundakvöldsins er Erling Kjærbo, yfirbókavörður Norræna hússins. Viðburðurinn hefst klukkan 19.30 og er aðgangur ókeypis.