Á síðustu árum hafa netglæpir aukist verulega, samhliða því að sífellt fleira fólk notar internetið. Slíkir glæpir geta valdið miklum skaða og lögregluyfirvöld hafa áhyggjur af því að þeir aukist vegna kórónaveirufaraldursins, þar sem glæpamenn, rétt eins og allir aðrir, eru nú lokaðir inni og fólk notar netið meira en nokkru sinni. Því er gott að hafa varann á og vita hvernig er best að passa sig.

Fylgjum Norðurlöndum

„Netglæpir eru stanslaust að aukast. Eftir því sem fleiri og fleiri tengjast netinu aukast líkurnar á að þar verði einhver svik eða svindl,“ segir Daði Gunnarsson, lögreglufulltrúi í netbrotadeild lögreglunnar. „Þróunin hér á landi hefur verið svipuð og annars staðar og í sumum brotum höfum við verið í samfloti með Norðurlöndunum.

Fyrir tveimur árum var til dæmis verið að herja á íþróttafélögin hér á landi með tölvupóstssvikum og þá var það sama að gerast hjá minni félögum á Norðurlöndunum,“ segir Daði. „Við erum ekki með jafn stór íþróttafélög eins og þessi stærstu á Norðurlöndunum, en litlu klúbbarnir úti og klúbbarnir hér heima lentu í sams konar svindli.

Það virðist eins og það sé þá herjað á ákveðin svæði á sama tíma,“ segir Daði. „Það er líka misjafnt hvað virkar á hverju svæði og þar föllum við í sama mengi og fólk á hinum Norðurlöndunum.“

Meiri hætta á nettælingum

„Það er óttast að kórónaveirufaraldurinn auki netglæpi almennt, en það er erfitt að segja til um það svona strax í byrjun,“ segir Daði. „En það lítur allt út fyrir það. Við höfum fengið fleiri tilkynningar og Europol hefur varað við þessari þróun.

Núna er fólk meira heima og meira á netinu og samskipti á netinu eru að aukast verulega, sérstaklega hjá börnum og unglingum, sem hittast nú ekkert,“ segir Daði. „Við óttumst að það auki líkurnar á nettælingum og því vonumst við til þess að foreldrar fylgist alveg sérstaklega vel með því við hvern börn og unglingar hafa samskipti á netinu.“

Kórónatengt svindl

„Við höfum líka séð aukningu á skráningum á lénum með titla sem vísa í Covid eða Kóróna, bæði hér og erlendis, og við teljum líklegt að í einhverjum tilfellum séu þessar vefsíður notaðar til svika,“ segir Daði. „Þær selja til dæmis varning eins og grímur eða annað hlífðarbúnað sem er ýmist falsaður eða ekki til. Sumar af þessum síðum eru líka með einhver spilliforrit sem geta sýkt tölvur. Fólk þarf að vera mjög vakandi fyrir þessu.

Hér á Íslandi virðist vera herjað á Facebook-síður fólks og fyrirtækja. Þá er verið að taka yfir reikninga, eyðileggja þá og safna upplýsingum af þeim,“ segir Daði. „Það er líka mikið verið að reyna að blekkja fólk til að gefa upp viðkvæmar upplýsingar. Auk þess er fölskum upplýsingum til fólks um faraldurinn dreift og jafnvel reynt að fá fólk til að greiða styrki eða annað til að styðja við þróun bóluefnis, en þá er bara einhver svikasíða á bak við það.

Við ætlum að birta upplýsingar um þetta á heimasíðu og Facebook-síðu lögreglunnar, en á vef Europol (www.europol.europa.eu) er líka hægt að finna ýmsar gagnlegar og aðgengilegar upplýsingar fyrir almenning og fyrirtæki sem hjálpa fólki að verja sig á netinu,“ segir Daði.

Helstu gerðir netglæpa

„Helstu gerðir netglæpa eru tölvupóstssvik og svokallaðar vefveiðar, þar sem reynt er að fá fólk til að gefa upp upplýsingar um sig eins og notendanöfn eða lykilorð,“ segir Daði. „Tölvupóstssvik lýsa sér til dæmis þannig núna að það er póstur sendur á fyrirtæki þar sem er sagt að einhver viðskiptavinur ætli að skipta um banka til að vera í viðskiptum við banka sem er nær verksmiðjunni vegna kórónaveirunnar, eða að vegna veirunnar geti fjármálastjórinn ekki verið í samskiptum við viðkomandi og þess vegna eigi núna að hafa samskipti við einhvern nýjan aðila.

Fólk þarf líka að hafa í huga að því gætu verið boðnir einhverjir atvinnumöguleikar sem gæti verið tilraun til að blekkja það til að vera burðardýr fyrir peningaþvætti,“ útskýrir Daði. „Þá er verið að reyna að fá að flytja peninga á reikninga fólks, fá það svo til að taka peninginn út, halda hluta hans eftir og leggja afganginn inn annars staðar. Þetta hefur gerst erlendis og það er rétt að vara við svona svikastarfsemi, sem sést til dæmis iðulega á spjallsvæðum, þar sem einhver notandi segist hafa grætt mikla fjármuni á því að sitja við tölvuna.“

Allir þurfa að passa sig

„Bæði einstaklingar og fyrirtæki eru fórnarlömb netglæpa. Tölvupóstssvik herja fyrst og fremst á fyrirtæki og vefveiðar herja frekar á einstaklinga,“ segir Daði. „En í loks dags er í raun alltaf verið að herja á einstaklinga, en stundum er það bara innan fyrirtækja.

Kynferðisbrot beinast að einstaklingum og þá eru börn og unglingar oftast fórnarlömb,“ segir Daði. „En fullorðnir verða líka fyrir þeim. Þá er til dæmis reynt að skapa traust og fá viðkvæmar myndir sendar og svo er hótað að birta þær. Við höfum ekki fengið fleiri tilkynningar um slíkt, en það gæti gerst, því svona svindl getur tekið nokkurn tíma. Það kemur í ljós eftir nokkra mánuði hvort þetta aukist í tengslum við faraldurinn.“

Leiðir til að verja sig

„Netglæpir eru mjög misjafnir, en þeir geta verið mjög vandaðir. Stundum eru til dæmis búnar til falsaðar útgáfur af síðum sem allir treysta,“ segir Daði. „Þess vegna er gott að skoða vefslóðina efst og athuga hvort hún sé ekki örugglega rétt og hvort slóðin byrji ekki örugglega á https, en þá sést lás við hliðina á vefslóðinni. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli ef fólk er að setja einhverjar upplýsingar inn á síðuna.

Það er mikilvægt að ganga úr skugga um að síður séu raunverulegar með því að athuga þetta,“ segir Daði. „Fyrir um 18 mánuðum var til dæmis gerð árás á lögregluna og þá var settur upp vefur þar sem stórt-i var notað í staðinn fyrir seinna l-ið, svo slóðin var logregian.is, en hún leit út eins og logregIan.is.

Fólk ætti ekki að opna tengla í póstum eða skilaboðum ef það á ekki von á þeim. Þá er vissara að ganga úr skugga um að tengillinn sé í lagi, til dæmis með því að tala við þann sem sendi hann,“ segir Daði. „Við höfum líka fengið fregnir af því að fólk hafi fengið senda USB-lykla sem innihalda spilliforrit.

Þegar fólk verslar á netinu ætti bara að versla við trausta aðila og þá er betra að versla með kreditkorti upp á tryggingar að gera,“ segir Daði. „Það borgar sig líka að taka reglulega afrit af öllum gögnum til að verjast því að tapa þeim ef harðir diskar hrynja eða fólk lendir í gagnagíslatöku.

Við mælum líka með því að fólk sé með lykilorðabanka sem býr til lykilorð fyrir fólk, því ef við búum þau til sjálf eru þau oft með svipuðum formerkjum,“ segir Daði. „Það er síðan misjafnt eftir því hvað fólk gerir á netinu hvort það sé þörf fyrir sérstaka vírusvörn fyrir utan þá sem er innbyggð í Windows-stýrikerfið. Ef fólk fer varlega á það ekki að þurfa meira.

Það er um að gera að vera á netinu, en eins og alls staðar annars staðar í lífinu þarf bara að passa sig,“ segir Daði. „Það er gott að fólk ræði við börn og unglinga. Þar sem allir eru heima núna er gott tækifæri til þess.“

Daði segir að það sé um að gera að vera á netinu, en að eins og alls staðar annars staðar í lífinu þurfi einfaldlega að passa sig. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTONBRINK
Netglæpir eru ógn sem fólk á öllum aldri þarf að vara sig á og í sumum tilfellum valda þeir mjög miklum skaða. ?En ef fólk veit hvað þarf að passa og hvað að hafa í huga verður mun auðveldara að verjast þeim. mynd/GETTY