Helga Dögg Björgvinsdóttir er varaformaður Kvenréttindafélags Íslands. Hún segir að áhuginn á jafnréttismálum hafi komið með móðurmjólkinni en móðir hennar, Esther Ragnheiður Guðmundsdóttir, var um tíma formaður þessa sama félags.

„Kvenréttindabaráttan var allt um lykjandi þegar ég var að alast upp og ég varð mikill femínisti strax sem krakki. Ég var oft með mömmu niðri á Hallveigarstöðum og fékk að leika mér þar. Eftir tvítugsaldurinn fór ég að láta meira til mín taka í jafnréttismálum en líkt og margar ungar konur fór ég að rekja mig á ýmsa veggi, bæði innan háskólans og á atvinnumarkaðnum,“ segir Helga Dögg, sem vinnur hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Crayon.

Hún gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og var um tíma formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna en sagði sig svo síðar úr flokknum. „Mér finnst ég hafa miklu meiri áhrif á samfélagið með því að starfa innan Kvenréttindafélagsins en innan stjórnmálaflokks. Þar gat oft verið strembið að láta sína rödd heyrast. Við konurnar sem vorum í Sjálfstæðisflokknum náðum þó nokkrum málum í gegn og mér fannst til dæmis stórsigur að á landsfundi var sett inn í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins að jafnréttismál yrðu eitt af grunngildum flokksins. Hins vegar upplifði ég að konum gekk illa í prófkjörum og það var tregða til að hleypa fleiri en einni til tveimur konum ofarlega á lista. Vonandi er það að breytast, en það var mikil íhaldssemi á sumum sviðum innan flokksins þegar ég var þar innanbúðar,“ segir Helga Dögg.

Helga Dögg var um tíma formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna en sagði sig svo síðar úr flokknum
Fréttablaðið/Eyþór

Góð samstaða í hópnum

Tilurð þess að hún gekk til liðs við Kvenréttindafélagið má rekja til þess að Helga Dögg var fengin til að tala á fundi félagsins um hvernig Sjálfstæðiskonur upplifðu jafnréttismál innan flokksins og hvernig konum farnaðist almennt í stjórnmálum. „Þar hitti ég þáverandi formann og framkvæmdastjóra KRFÍ, sem spurðu hvort ég hefði áhuga á að koma í stjórn en þá var stutt í næsta aðalfund. Ég sló til og bauð mig fram og síðan eru liðin tæp tíu ár. Um tíma var ég ritari en síðustu tvö árin varaformaður,“ segir Helga Dögg, en starfið er unnið í sjálfboðaliðavinnu.

„Þetta er frábær hópur og góð samstaða í hópnum. Innan félagsins eru ólíkar konur en við náum alltaf að tala okkur saman að sameiginlegri niðurstöðu, sem er alveg magnað. Við erum óhræddar við að láta í okkur heyra úti í samfélaginu og finnum að það er hlustað á okkur. Stjórnvöld kalla okkur til, til að heyra hvað okkur finnst um ýmis mál og við skrifum mikið af umsögnum um frumvörp til laga,“ segir Helga Dögg.

Vill að konur njóti sannmælis

Innt eftir því hver hafa verið hennar helstu baráttumál segir Helga Dögg að þau séu mörg. „En fyrst og fremst að konur njóti sannmælis. Að þegar konu og karli er stillt upp hlið við hlið, með sömu menntun og starfsreynslu, sé konan ekki endalaust vanmetin og karlinn ofmetinn. Það er stundum ótrúlegt hversu oft hallar á konur í þessum efnum. Ég brenn líka fyrir því að stúlkurnar okkar þurfi ekki að alast upp við það misrétti að þær eigi mögulega eftir að hafa lægri laun en strákar fyrir sömu vinnu. Mér finnst líka mikilvægt að konur hafi möguleika á sama framgangi í starfi og karlar. Oft gleymist að konur hverfa um tíma frá vinnumarkaði vegna til dæmis barneigna, eða vegna þess að þær eru að sinna veikum börnum eða öldruðum foreldrum. Það hefur ekki bara áhrif á tekjur þeirra akkúrat á þeim tíma heldur líka þegar kemur að því að þær fara á eftirlaun, því þetta hefur kjaraskerðingaráhrif á þeirra lífeyri,“ bendir Helga Dögg á.

Hún segir að vissulega séu Íslendingar framarlega í jafnréttismálum miðað við margar aðrar þjóðir. „Á sumum sviðum erum við hálfgerðar rokkstjörnur í þessum efnum en svo er margt sem enn þarf að laga. Við þurfum til dæmis að laga launamálin en meirihluti þeirra sem eru í láglaunastörfum eru konur, en meirihluti þeirra sem er í hálaunastörfum eru karlar,“ segir Helga Dögg.

Þá nefnir hún að #metoo-byltingin sé ótrúlega mikilvæg fyrir alla. „Hún hefur opnað augu karlmanna fyrir ýmsu sem hingað til hefur ekki verið vandamál í þeirra augum. Um leið og farið er að tala opinskátt um kynbundið ofbeldi átta þeir sig á að það er eitthvað sem ekki er í lagi og þarf að breyta,“ segir Helga Dögg, sem er líka hugsandi yfir umræðu um Only Fans.

„Við þurfum að skoða hvaðan sú hugsun kemur inn í kollinn á drengjunum okkar að það sé í lagi að borga fyrir aðgang að líkama annarra. Við eigum að ala alla upp í að það sé jafn óeðlilegt og að okkur finnst óeðlilegt að ganga um með skotvopn. Ég held að það sé mikilvægt fyrir framtíðina að koma kynjafræði og meiri kynfræðslu inn í námsskrá bæði grunn- og framhaldsskóla. Það væri skref í rétta átt,“ segir Helga Dögg.