Margir stunda það að skruna mikið gegnum samfélagsmiðla og fréttasíður, en sú venja getur auðveldlega skapað kvíða og ýtt undir vanlíðan. Þessir staðir eru alla jafna yfirfullir af slæmum fréttum og öðru áhyggjuefni og á þessu ári hefur það verið verra en nokkru sinni. Margir upplifa það samt að stunda þetta langtímum saman eða endurtaka þessa hegðun, jafnvel á áráttukenndan hátt. Þessi skaðlega hegðun er svo algeng að á ensku er komið sérstakt orð yfir hana, „doomscrolling“, sem mætti þýða sem dómsdagsskrun á íslensku. En þó að margir falli í þessa gryfju eru til leiðir upp úr henni.

Á þessu ári hafa skapast kjöraðstæður til að láta dómsdagsskrun ná tökum á sér. Endalausar fréttir af faraldrinum og öðrum erfiðum málum í bland við samkomubönn sem hafa haldið fólki heima og við tölvur, hafa valdið því að margir hafa drukkið í sig slæmar fréttir af miklum krafti. En þessi venja fer illa með geðheilsuna, segja sérfræðingar. Rétt eins og slæmt mataræði veldur slæmri líkamlegri heilsu, er það óhollt fyrir hugann að innbyrða of mikið af neikvæðni.

Vítahringur neikvæðni

Sálfræðingurinn Dr. Amelia Aldao varaði við því í viðtali við fréttavefinn NPR að dómsdagsskrun festi fólk í vítahring neikvæðni, sem valdi kvíða.

„Hugar okkar eru hannaðir til að vera á varðbergi gagnvart ógn,“ segir hún. „Þeim mun meiri tíma sem við eyðum í að skruna, því meira finnum við þessar hættur og því meira sem við látum óttann við þær ná tökum á okkur, þeim mun kvíðnari verðum við.“

Þetta neikvæða efni getur svo valdið því að við sjáum heiminn í neikvæðu ljósi, bætir hún við.

„Þá horfir þú í kringum þig og allt virðist svart og allt veldur þér kvíða. Þannig að þú leitar aftur í fréttirnar til að fá meiri upplýsingar,“ segir Aldao. Þannig viðhelst vítahringurinn.

Leiðir upp úr gryfjunni

Aldao rekur sálfræðistofu sem sérhæfir sig í hugrænni atferlismeðferð og hefur hjálpað sjúklingum sínum að minnka dómsdagsskrun. Hún er með góð ráð.

Settu tímatakmörk: Aldao segir að hún vinni mestmegnis með skjólstæðingum sem upplifa kvíða og að hún hafi reynt mikið að takmarka skrunið. Hún gerir það einfaldlega með því að segja fólki að setja sér tímatakmörk. Fólk vill vita hvað er að gerast í heiminum, þannig að lausnin er ekki að hætta að fara á netið, heldur að finna mörk.

Verið meðvituð: Þegar farið er á fréttasíður eða samfélagsmiðla, eða bara í hvert sinn sem síminn er tekinn upp er gott að minna sig á af hverju þú ert þar, að hverju þú ert að leita og hvaða upplýsingar þú vilt finna. Svo þarf reglulega að spyrja sig: Hef ég fundið það sem mig vantaði?

Skiptið neikvæðum venjum út fyrir jákvæðar: Það er líka mikilvægt að finna aðra hluti sem geta komið í staðinn fyrir óholla hegðun. Það er um að gera að fara t.d. í gönguferðir, hafa samband við vini sína, senda eitthvað fyndið til félaganna eða stunda skemmtileg áhugamál. Lykillinn er að eyða tíma sínum í hluti sem valda vellíðan og fylla lífið af jákvæðum tilfinningum og upplifunum.