Á annan í jólum hóf sjónvarpsþátturinn Verbúðin göngu sína á RÚV og er óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið góðar.
Samkvæmt nýrri könnun markaðsrannsóknafyrirtækisins Prósent, sem gerð var dagana 30. desember til 9. janúar, höfðu 57 prósent þjóðarinnar horft á fyrsta þáttinn.

Hærra áhorf mældist í eldri aldurshópum en 74 prósent úr aldurshópnum 65 ára og eldri horfðu á fyrsta þáttinn en einungis 35 prósent í aldurshópnum 18 til 34 ára.
Mjög mikill meirihluti svarenda var ánægður með Verbúðina. Alls sögðust 51 prósent vera ánægð með þáttinn, 37 prósent voru frekar ánægð, níu prósent voru hvorki né, tvö prósent voru frekar óánægð og eitt prósent var mjög óánægt.

Lítill munur var á einkunnargjöf á milli hópa. Íbúar höfuðborgarsvæðisins voru ánægðari með þáttinn en íbúar á landsbyggðinni. Að sama skapi mældist aðeins meiri óánægja í aldurshópnum 65 ára og eldri.
Könnunin var netkönnun meðal könnunarhóps Prósent, gerð dagana 30. desember til 9. janúar. Í úrtaki voru 2.300 einstaklingar 18 ára og eldri. Svarendur voru 1.118 eða 49 prósent aðspurðra.

