Ég hef alltaf verið mikið fyrir að vinna í höndunum. Ég komst svo að því á fullorðinsaldri að ég er með ofvirkni og athyglisbrest, það rímar vel við hvað ég hef alltaf verið aktív í höndunum. Mér var sagt þegar ég fékk greininguna að það væri algengt að fólk meðhöndlaði sjálft sig með því að vinna í höndunum því það gefur huganum frið,“ útskýrir Tobba.

Hún segir að skartgripagerðin sé eiginlega meðferð fyrir hana því henni finnst rosalega gott að sitja í rólegheitum, hlusta á tónlist og einbeita sér að því að búa til skartgripi. „Ég byrjaði þegar ég var unglingur, þá var ég að búa til mellubönd og leira peace-merki og fleira í athyglisverðum litum. Það spurðist út og ég fór að selja skartgripina en varð svo leið á því, þetta var svo mikil vinna og ég var bara krakki og hafði ekki vit á að selja þetta nema rétt svo fyrir kostnaði.“

Tobba segir Ljósið hafa bjargað henni frá því að ofhugsa allt og falla í þunglyndi. Hún er þakklát fyrir að hafa getað leitað þangað FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Svo gerðist það fyrir nokkrum árum að Tobba missti vinnuna í hópuppsögn og veiktist af krabbameini á sama tíma. „Ég varð þess vegna að finna mér eitthvað að gera til að fylla upp í tímann því það hjálpar engum að hafa ekkert að gera. Ég byrjaði á að kaupa fullt af efni og sauma en það gekk alls ekki vel svo ég fór að dúlla eitthvað við skartið.“

Tobba segir að líkt og þegar hún var unglingur hafi skartgripagerðin spurst út. „Systur minni fannst þetta flott og bað um að fá að kaupa hjá mér. Hún pantaði fram í tímann og það seldist upp. Þá gat ég keypt meira efni og var allt í einu farin að selja skartgripi.“

Seinna þegar Tobba dvaldi í nokkrar vikur á Heilsuhælinu í Hveragerði, kynntist hún stelpu sem bað hana að búa til skartgripi fyrir búðina sína. Þannig fór boltinn að rúlla.

Október armbandið 2019 sem Tobba selur til styrktar Ljósinu.

„Ég nota bara náttúrusteina, gler og nikkelfrítt efni í skartgripina mína. Ég hef reyndar líka verið að leira kúlur úr plastleir en það er eina plastið sem ég nota, perlurnar eru náttúruperlur.“

Tobba segist alltaf búa til armbönd í allavega fimm stærðum og jafnvel fleiri stærðum þegar hún býr til armböndin. „Það er oft þannig þegar fólk er veikt að úlnliðirnir eru bólgnir eða fólk vill geta haft armböndin utan um fötin sín eða haft þau frekar laus. Svo er ekki hægt að hafa bara eina stærð sem passar öllum. Ef fólk hefur samband við mig og sendir mér úlnliðsummálið sitt þá get ég gert armband í þeirri stærð.“

Getur aldrei fullþakkað Ljósinu fyrir óeigingjarna vinnu

„Núna sel ég skartið mitt eingöngu í versluninni Upplifun í Hörpu og í gegnum Facebook síðuna mína. Í október sel ég líka sérstakt október armband í Ljósinu. Hluti af söluverði hvers októberarmbands rennur til styrktar Ljósinu sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra,“ segir Tobba.

Tobba leirar kúlurnar og nota gróft salt til að búa til hraunáferðina.

Með því að selja armböndin til styrktar Ljósinu er Tobba að vissu leyti að gefa til þeirra til baka eftir þá hjálp sem hún fékk frá þeim þegar hún veiktist af krabbameini. „Ljósið bjargaði mér frá því að ofhugsa allt og falla í þunglyndi. Starfsemi Ljóssins er alveg hreint ótrúleg og ég veit hreinlega ekki hvað ég hefði gert í mínum veikindum án þeirra,“ segir Tobba.

„Þegar maður verður eldri áttar maður sig á því að það er enginn sem á einfalt, auðvelt líf án vandamála. Öll erum við mannleg og eigum við einhver vandamál að stríða. Ég varð kannski extra óheppin eitt árið. Ég fékk að vita á föstudegi að ég væri með frumubreytingar á háu stigi og á mánudeginum missti ég vinnuna í hópuppsögnum hjá Mannviti verkfræðistofu og við tók mikil óvissa hvað varðaði vinnu og heilsu.“

Tobba segir að skartgripagerðin sé nokkurs konar meðferð fyrir sig.

Tobba segir að þetta hafi farið illa í sig og hún vissi ekki hvað hún átti að gera. Sonur hennar var fermdur stuttu eftir þetta en Tobba var svo heppin að þau gátu flutt til foreldra hennar á meðan á þessu óvissutímabili stóð. „Þau stóðu við bakið á mér eins og klettur. Einnig var ég svo heppin að ég líf- og sjúkdómatryggði mig þegar strákurinn minn fæddist og það gerði mér kleift að kaupa íbúð sem ég og strákurinn minn búum í dag.“

Tobba segir að það að hún hafi alltaf verið góð í höndunum hafa hreinlega komið henni til bjargar í veikindunum. „Sundum koma tímar þar sem óvissan er svo mikil að það er hreinlega ekki hægt, eða virðist ekki vera hægt, að taka einhverjar ákvarðanir. Ég vildi ekki að allir vissu að ég væri veik. Kærði mig ekki um það að fólk væri að vorkenna mér og alltaf að spyrja hvernig maður hefði það. Þá var frábært að geta leitað til Ljóssins. Þar gat ég mætt þegar ég vildi, verið í kringum fólk sem var í sömu sporum og ég og tók bara einn dag í einu. Ég þurfti ekki að ákveða neitt, gat bara einbeitt mér að því að vera ég, hvernig sem það var hverju sinni. Maður má hlæja og segja brandara í Ljósinu og hafa gaman. Maður má vera hryggur án þess að neinum finnist það óþægilegt því allir skilja mann. Einu sinni var ég að leira og ég var að berja loftið úr leirnum eins og maður þarf að gera og allt í einu sá ég að allir voru að horfa á mig. Þá áttaði ég mig á því að ég hafði verið að dúndra leirnum í gólfið aftur og aftur enda bálreið út af einhverju. Það merkilega var að ég sá það í augunum á öllum að þeim fannst þetta bara ofureðlilegt og sniðugt. Þau brostu og ég fór að hlæja. Svona er Ljósið og ég get aldrei fullþakkað Ernu stofnanda og Ljósinu fyrir þá frábæru, óeigingjörnu vinnu sem fer þar fram.“

Börnin eru svo einlæg og skemmtileg og óhindruð

Tobba hefur haldið nokkur námskeið í skartgripagerð fyrir börn, sem hún segir að sé það skemmtilegasta við skartgripagerðina. „Mér finnst svo gaman að vera nálægt börnum, þau eru svo einlæg og skemmtileg. Þau eru líka svo óhindruð, það er gaman að sjá hverju þeim dettur í hug að blanda saman og búa til.“

Tobba hefur haldið nokkur námskeið í skartgripagerð fyrir börn.

Á námskeiðunum nýtir Tobba afgangsefni sem hún hefur ekki getað notað í eigin hönnun. „Ég hef til dæmis kannski keypt poka af náttúrusteini en stór hluti hans var bara einlitur hvítur en ég var að sækjast eftir yrjóttum lit, þannig að oft get ég bara notað hluta af efninu sem ég kaupi. Þess vegna á ég orðið helling af góðu efni sem nýtist bara ekki í hönnunina mína. Mér finnst gott að geta nýtt það efni á námskeiðunum og hindra þannig óþarfa sóun.“

Innifalin í námskeiðsgjaldinu eru tvö armbönd sem börnin fá að taka með sér heim ásamt gjafapokum og sérhönnuðum merkimiðum fyrir hvert barn með nafni barnsins og design fyrir aftan. „Börnin hafa mjög gaman af því,“ segir Tobba.

Tobba segir að ótrúlegt sé að fylgjast með því á námskeiðunum hvernig hinir mestu ólátabelgir róast niður þegar þeir þræða perlurnar upp á bönd og raða saman litunum. „Krakkarnir fá kristal og sprengt gler sem í þeirra augum eru gimsteinar. Þeim finnst þetta æðislegt. Ef ég mætti ráða þá myndi ég bara vilja vinna með börnum á skartgripanámskeiðum og búa til skartgripi sjálf. Það væri draumurinn.“