Ellen DeGeneres hóf í dag nýjustu seríu sinna geysivinsælu spjallþátta með afsökunarbeiðni. Mikill styr hefur staðið um grínistann og þætti hennar að undanförnu eftir að fjöldi fyrrverandi starfsmanna kvörtuðu opinberlega undan óheilbrigðu vinnuumhverfi.

Í dag snéri Ellen fyrst aftur á skjáinn eftir að ásakanirnar náðu hámæli í sumar og hóf 18. seríu The Ellen DeGeneres Show á því að biðja alla þá sem málið snerti innilega afsökunar.


Þá sagðist hún taka ásökununum alvarlega og að innanhúsrannsókn hafi leitt til „nauðsynlegra breytinga.“

Þrír hátt settir framleiðendur þáttanna hafa verið reknir í kjölfar ásakana um slæma stjórnunarhætti og kynferðislega áreitni.

Í opnunarinnslagi sínu sagði Ellen að hún hafi heyrt um atvik sem aldrei hafi átt að viðhafast. Þá bætti hún við að það sem gerðist innan vébanda þáttarins og við framleiðslu þeirra væri á hennar ábyrgð.
„Við höfum gert nauðsynlegar breytingar og í dag hefjum við nýjan kafla.“

Í sömu andrá tilkynnti Ellen að DJ Twitch, plötusnúður þáttanna, hafi verið hækkaður í stöðu meðframleiðanda.

Meðal þess sem yfir­mönnum þáttarins hefur verið gert að sök er að beita starfsfólk ein­elti, refsa þeim sem leggi inn kvartanir, láta falla rasísk ummæli, segja starfs­­­fólki upp í miðju veikinda­­­leyfi og neita fólki um leyfi til að fara í jarðar­­­farir fjöl­­­skyldu­­­með­lima