Halldóra Guðmundsdóttir leikskólastjóri segir að bæði starfsfólk og börn séu afar stolt af þessum heiðri. „Það var frábært að flagga fimmta Grænfánanum okkar. Grænfáninn er samstarfsverkefni með Landvernd um umhverfismennt. Hver fáni er veittur fyrir sérstakt þema og ef skólinn sýnir fram á að starfa eftir því, hlýtur hann fánann,“ segir Halldóra.

Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu. „Við vinnum með umhverfisvernd, flokkum öll úrgangsefni, hugum að notkun á rafmagni og vatni, ásamt því að vinna með átthagana og lífsfjölbreytileika. Einnig höfum við verið í alþjóðlegu verkefni að búa til námsefni fyrir 5-9 ára börn um líffjölbreytileika. Bæði leik- og grunnskólar tóku þátt í því verkefni,“ segir hún.

Drafnarborg var með umhverfismarkmið þegar leikskólinn sameinaðist Dvergasteini fyrir tíu árum. Skólinn fékk þá nafnið Drafnarsteinn. „Okkur hefur alltaf fundist það svo sjálfsagður hlutur og eðlilegur að virða umhverfisvernd, ekki síst í námi barna. Mér hefur alltaf þótt það einstaklega skemmtilegt að sjá hversu eðlilegt þetta er fyrir börnin,“ segir Halldóra, sem var verkefnisstjóri umhverfisstefnu á fyrstu árunum. „Það þurfti ekkert átak því krakkarnir voru svo tilbúnir í að flokka og fannst það áhugavert. Sorpa í Ánanaustum er í nálægð við okkur og við göngum iðulega þangað með rusl. Við erum með moltugerð og eldhúsið tekur mikinn þátt í þessu starfi. Foreldrar barnanna hafa líka verið áhugasamir um þetta verkefni okkar. Þeir hafa verið með fataskiptamarkað og starfsfólkið tekur þátt í honum. Það má segja að þetta vindi upp á sig í allar áttir,“ segir Halldóra.

„Elstu börnin mynda umhverfisnefnd ásamt kennurum og foreldrum. Haldnir eru fundir reglulega og sett markmið. Þannig finna börnin til sín og taka verkefninu af mikilli ábyrgð. Flest börnin halda áfram í Vesturbæjarskóla en hann vinnur eftir Grænum skrefum Reykjavíkurborgar. Við munum verða þátttakendur í því áður en langt um líður, en það er stefna borgarinnar. Ég vona innilega að það sem börnin læri á leikskólanum fylgi þeim áfram í lífinu. Við höfum heyrt sögur af börnunum heima þar sem þau passa upp á að foreldrarnir eyði ekki of miklu rafmagni, slökkvi jafnvel ljósin,“ segir Halldóra og hlær.

„Fyrstu árin fannst okkur margt virka mjög erfitt í flokkunarkerfi og umhverfisvernd, en með árunum er þetta bara orðinn hluti af tilverunni. Það heyrðust alveg hljóð úr horni þegar við ræddum um að taka upp moltugerð, en öllum finnst hún sjálfsögð í dag. Umræðan hefur auðvitað snarbreyst á tíu árum og ég finn vel að starfsfólkið tekur þetta með sér heim eins og börnin. Allir taka höndum saman um að skapa betra umhverfi,“ segir hún.

„Í rauninni hefur leikskólinn alltaf verið umhverfisvænn. Leikskólakennarar hafa alltaf þurft að nýta alla hluti. Við söfnum pappírshólkum og málum þá. Sömuleiðis söfnum við krukkum og kaupum mjög lítið af því efni sem við vinnum með. Fyrir tíu árum vorum við að prenta út alls konar sem þekkist ekki í dag. Starfshættir kennara hafa því líka breyst enda flestir áhugasamir um græn málefni,“ segir Halldóra. „Það er ótrúlegt hvað margt í dag er einfalt sem þótti flókið fyrir nokkrum árum.“

Halldóra segir að þótt börnin séu ung að árum séu þau meðvituð um umhverfið og fylgist með umræðunni. „Dóttir mín sem er í tíunda bekk tók fullan þátt í umhverfisbaráttu unga fólksins með mótmælaspjöldum við Alþingi í fyrra. Leikskólabörn taka miklu meira eftir umræðunni en maður telur og hafa sterkar skoðanir. Í leikskólann koma alltaf ný börn og við höldum áfram að leiða þau í grænni umræðu og erum alltaf að rifja upp. Þegar við erum í gönguferð eru þau afar athugul varðandi umhverfið. Hneykslast síðan mikið ef þau sjá rusl á götunni. Að mínu viti ættu allir skólar að hafa græn skref eða Grænfána.“