Bókin er samstarfsverkefni sex vinsælla matarbloggara sem leggja til vinsælustu uppskriftirnar sínar. Hver og einn bloggari er með sitt sérsvið og bókin inniheldur því afar fjölbreyttar uppskriftir frá þessum frábæru konum. Allt frá gómsætum eftirréttum og kökum til klassískra rétta, heilsurétta og einfaldra hversdagsrétta. Bókin inniheldur 120 uppskriftir og ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Bókin er samstarfsverkefni sex vinsælla matarbloggara.

Ólína S. Þorvaldsdóttir eða Lólý eins og hún er alltaf kölluð er alvöru Gaflari enda aldrei búið annars staðar en í hinum sólríka Hafnarfirði. Lólý líður best í eldhúsinu og því lá beint við að stofna matarblogg enda foreldrarnir miklir matgæðingar og byrjaði hún sem lítil stelpa að bæði baka og elda. Ef hún hefur ekkert fyrir stafni þá liggur leiðin ávallt rakleitt í eldhúsið og við taka nýjar uppskriftir og tilraunastarfsemi og nýtur öll fjölskyldan góðs af og systkinabörnin taka gjarnan þátt í eldamennskunni með henni.

Lólý byrjaði upphaflega að blogga á www.loly.is til að koma öllum uppskriftunum sínum á einn stað. Markmið síðunnar er að hafa fallegar myndir og að uppskriftirnar séu í einfaldari kantinum svo allir geti gert þær.


Lólý birtir uppskriftir sínar á síðunni loly.is og er markmiðið að þær séu í einfaldari kantinum svo allir geti notað þær.

Hnetu og Perukaka

Ég ákvað að gefa ykkur lesendum uppskrift af einni af mínum uppáhalds kökum. Hún er dásamleg á bragðið og ekki laus við að vera smá hátíðleg. Það er svona smá jólakeimur af henni enda kanill í henni. Hún verður svo mjúk og góð. Það er svo auðvitað í góðu lagi að bæta aðeins í hana t.d smá söxuðu súkkulaði í deigið áður en hún er bökuð ef fólk vill gera extra vel við sig.

250 ml brætt smjör
200 g sykur
250 g hveiti
1 tsk lyftiduft
1 tsk kanill
50 g heslihnetur smátt saxaðar
50 g möndlur smátt saxaðar
50 g pistasíur smátt saxaðar
50 g pekanhnetur smátt saxaðar
100 g dökkt súkkulaði
3 egg
1 msk möndludropar
2 ferskar perur skornar í bita

Ofan á kökuna


150 g súkkulaði (ég nota stundum appelsínusúkkulaði)
3 msk smjör


Blandið saman í skál sykur,hveiti,lyftiduft og krydd í skál.


Blandið öllum hnetunum saman í annarri skál en takið til hliðar 3 msk af þeim til að dreifa ofan á kökuna seinna – en blandið restinni saman við þurrefnið ásamt súkkulaðinu.


Þeytið saman egg, smjör og möndludropa og blandið því síðan hægt og rólega saman við þurrefnin. Blandið síðan perunum varlega út í með sleif, deigið er mjög þykkt.


Setjið í hringlaga form og bakið við 160°C í 50 mínútur en setjið þá álpappír yfir kökuna og bakið hana í aðrar 20 mínútur.

Látið kökuna kólna vel áður en þið bræðið súkkulaði með smá smjöri út í sem þið hellið yfir kökuna og dreifið hnetunum yfir sem þið tókuð til hliðar.

Berið fram með rjóma eða ís.

Gott er að bera kökuna fram með rjóma eða ís.