Kristjana rifjar upp daginn og segist hafa verið í klassískum ’80-fatnaði. „Við mamma fórum í tískuvöruverslunina Lindina á Selfossi og keyptum rautt pils og skjannahvíta skyrtu með stórum kraga. Svo fékk ég mína fyrstu hælaskó, klassíska hvíta en með smá silfurrönd. Þeir voru keyptir í skóbúð Selfoss hjá Búllu frænku minni,“ segir hún brosandi.

Kristjana segir að fermingarmyndin hafi verið mjög týpísk fyrir þennan tíma en hún fermdist vorið 1982. MYND/AÐSEND

Kristjana fékk margar frábærar gjafir og er ánægð með daginn.

„Ég fékk nokkra skartgripi og bækur. Systkini mömmu og fjölskyldur þeirra gáfu mér fullan skíðabúnað og mamma gaf mér ferð í Kerlingarfjöll til að læra á skíðin. Pabbi gaf mér geggjað kasettutæki sem hafði verið draumur minn í langan tíma. Þá gat ég loksins tekið upp uppáhaldslögin mín í Lögum unga fólksins,“ segir hún.

Þegar Kristjana er spurð hvort hún sé ánægð með fermingarmyndina, svarar hún: „Já, hún er allt í lagi en er algjörlega barn síns tíma hvað varðar uppstillingu, klæðnað og hárgreiðslu.“

Kristjana er búin að ferma son sinn sem valdi að fermast borgaralega.

„Það var mjög afslappað og gaman, héldum veisluna í sal en bara nánustu vinir og fjölskylda.“

Fermingarfötin voru í anda níunda áratugarins og hárgreiðslan sömuleiðis. Rjómaterturnar flóðu um borðið eins og tíðkaðist á íslenskum heimilum á þessum tíma. MYND/AÐSEND

Þetta hefur verið annasamur vetur hjá Kristjönu. Hún var tónlistarstjóri í Söngvakeppni sjónvarpsins og þar áður raddþjálfaði hún keppendur í Idol-keppninni á Stöð 2.

„Síðan samdi ég tónlist fyrir Shakespeare-sýninguna í Þjóðleikhúsinu en ég leik- og tónlistarstýri þeirri sýningu sem er í fullum gangi auk þess að kenna í Listaháskólanum.“

Kristjana segir að alltaf sé eitthvað spennandi á dagskrá hjá sér og næst séu það heiðurstónleikar Ellu Fitzgerald í Salnum sem verða 22. apríl næstkomandi.

„Síðan mun ég svo taka þátt í danssýningunni „When the bleeding stops“ eftir Lovísu Ósk Gunnarsdóttur og við erum á leið til Dublinar að sýna á Aerowaves Spring Forward-danshátíðinni í lok apríl,“ segir hún en Kristjana samþykkti að deila fermingarmyndinni með lesendum.

Þetta viðtal birtist fyrst í Fermingarblaði Fréttablaðsins föstudaginn 17. mars 2023.