„Það besta við jólin eru tónlistin, ljósin, jólakvikmyndir, maturinn og jólaundirbúningur með öllu tilheyrandi á aðventunni. Jólaljósarölt og bíltúrar eru líka í uppáhaldi og samvera með fjölskyldunni, spil, kalkúnn og jólaöl. Að skreyta piparkökur og krukkur með „litlu“ frænkum mínum. Það er bara eitthvað alveg sérstakt við jólin; þakklæti, friður og kósíheit við kertaljós koma upp í hugann,“ segir Sólveig. „Mér finnst líka einstaklega gaman að gleðja mína nánustu með gjöfum. Því sælla er að gefa en þiggja. Ég missti mig oft í jólagjöfum hér áður fyrr, sérstaklega fyrir litlu börnin í fjölskyldunni. Það er svo gaman að kaupa barnaföt. Maður þarf ekki að máta sjálfur og getur fríkað út sem stílisti. Núna er ég ekki jafn brjáluð í jólagjöfunum, þó ég gleymi mér stundum. Það er bara svo gaman að vera í hlutverki sveinka.“

Sólveig er oft kölluð Jolla-Sollla af fjölskyldumeðlimum enda byrjar hún að hlakka til jólanna í lok sumars og spila jólalögin upp úr byrjun septembermánaðar.

Sólveig er litrík manneskja, skapandi og tónelsk með fjölbreytt áhugamál og öflugt ímyndunarafl. Hún er áhugaljósmyndari og finnst gaman að skrifa. Hún er grunnskólakennari og kennir íslensku sem annað mál. „Til þess nota ég fjölbreyttar kennsluaðferðir, meðal annars með tónlist, leiklist, skapandi skrifum og samræðum. Ég er með stórt hjarta og sterka réttlætiskennd og þoli ekki þegar aðrir eru órétti beittir. Mannréttindi eru mér því hjartfólgin og frelsið til að fá að vera maður sjálfur.“

Sólveig er einnig söngkona. „Ég er að sjálfsögðu byrjuð að huga að jólalögum til að syngja á Tik Tok en þar set ég reglulega inn söngmyndbönd. Endilega fylgið mér þar: @sollasoulful.“

Jolla-Solla langspenntust

Sólveig byrjar að hlakka til jólanna undir lok sumars. „Þá kemur fyrsta tilhlökkunin, því þá fer að líða að hausti og loks jólum, í mínum huga, sem hraðspólar stundum áfram. Þegar -ber mánuðirnir líta dagsins ljós, sérstaklega þegar fer að dimma og kólna, þá sé ég fyrir mér fannhvíta jörð og ljósadýrð.“

Sólveig hefur elskað jólin allt frá barnæsku og finnur enn fyrir barnslegri gleði og eftirvæntingu þegar mánuðirnir sem enda á -ber líta dagsins ljós. Mynd/aðsend

Sólveig er ekki eina jólabarnið á heimilinu. „Á jólunum í Covid faraldrinum vorum við sambýlismaðurinn minn ein heima. Hann gaf mér sjö gjafir en með hverri þeirra fylgdi kort með vísbendingu fyrir næstu gjöf og koll af kolli. Hann faldi gjafirnar úti um alla íbúð svo það fór talsverður tími í leitina og úr varð skemmtilegur vísbendingaleikur.“

Sólveig er þó langspenntust fyrir jólunum af vinum og fjölskyldu. „Flestir í fjölskyldunni eru slakari og byrja ekki að hlusta á jólalög fyrr en í desember. Það er líka allt í lagi, sko. Ég keypti mér nýverið jólasveinabolla til að hafa í vinnunni. Nokkrir fengu sjokk og háfleygar setningar eins og: „Ertu brjáluð, það er bara nóvember“ voru látnar falla. Ég blæs á svona athugasemdir. Það er korter í desember! Ég þarf sko ekki á þessari neikvæðni að halda. Þegar ég finn einhverja Skröggsstemningu, bý ég bara til mína eigin jólabúbblu. Ég fæ líka smá kikk út úr því að þjófstarta og er reglulega kölluð jolla-Solla af fjölskyldunni.“

Jólatónar í september

Sólveig er á þeirri skoðun að það mætti byrja mun fyrr að spila jólalögin. „Það má byrja að hausti fyrir mér. Jólin líða allt of hratt og því ekki að njóta jólatónanna lengur? Það er ógrynni til af jólatónlist. Mörg jólalög tengjast minningum mínum og hef ég alveg skellt jólalagi á fóninn þó það sé sumar. Ég byrja annars að hlusta smá á jólalögin í september og október, fyrir alvöru í nóvember og svo af fullri alvöru í desember.“

Sólveig hefur samið eitt jólalag sem hún sendi í Jólalagakeppni Rásar 2 og komst það í tíu laga úrslit á sínum tíma. „Lagið heitir Ljósin fela myrkrið og er angurvært lag með dassi af trega. Textinn vísar í jákvæð áhrif ljósanna í skammdeginu, birtuna innra með okkur á þessum tíma og von um birtu.“

Sólveig elskar að taka ljósmyndir og hér varð þetta sjarmerandi vetrarlandslag fyrir valinu.

Hlýtt í hjartanu

„Ég skreyti ekkert brjálæðislega fyrir hátíðirnar en legg frekar áherslu á jólaljósin inni og úti. Þó legg ég mikinn metnað í að skreyta jólatréð. Uppáhaldsjólaskrautið myndi ég segja að væri jólasveinninn sem sambýlismaður minn gaf mér um daginn. Hann er klæddur í feld sem er svipaður og kápan mín. Uppáhaldsjólaljósið er svo snjókarl sem bróðir minn gaf mér fyrir mörgum árum. Hann lýsir endalaust og mér verður alltaf hlýtt í hjartanu þegar hann er upplýstur.“