Breski leik­stjórinn Peter Brook lést um helgina 97 ára að aldri. Brook var einn á­hrifa­mesti leik­hús­maður heims og eru sýningar hans á borð við Mahabharata og fræði­rit hans Tóma rýmið kennd í leik­listar­skólum víða um lönd. Brook var list­rænn stjórnandi Royal Shakespeare Company í Strat­ford og stofnaði til­rauna­leik­húsið Bouf­fes du Nord í París.

Magnús Geir Þórðar­son, Þjóð­leik­hús­stjóri, minnist Peter Brook sem djúp­viturs og heillandi læri­meistara en þeir hittust þegar Magnús var við nám í Bret­landi á 10. ára­tug síðustu aldar.

„Það var nú reyndar bara tvisvar sem ég hitti hann sem ungur leik­stjórnar­nemi, fékk tæki­færi til að bæði sjá sýningar hjá honum og hlusta á hann tala um leik­hús og svo í fram­haldi að spjalla við hann. Það var mikil upp­lifun,“ segir Magnús Geir sem var staddur í fjöl­skyldu­fríi á Grikk­landi þegar blaða­maður náði tali af honum.

„Þegar ég hitti hann var hann alveg ein­stak­lega gefandi og hlýr eins og hann virðist alltaf hafa verið. Hann sýndi mér, korn­ungum manninum þarna, mikinn á­huga, gaf sér tíma og var af­skap­lega hvetjandi og góður við mann sem var að feta sín fyrstu skref á þessari leik­hús­braut.“

Magnús lærði leik­stjórn við Bristol Old Vic Theat­re School og fékk tæki­færi til að sjá nokkrar af sýningum Brook á árunum 1993-1995. Hann segir verkið The Man Who sem byggir á þekktri bók eftir breska tauga­lækninn Oli­ver Sacks hafa verið einna eftir­minni­legast.

Að sögn Magnúsar gætir á­hrifa Peter Brook víða í leik­hús­heiminum í dag og nefnir hann sem dæmi breska leik­stjórann Simon McBur­n­ey, stofnanda Complicité-leik­hópsins, en Þjóð­leik­húsið vinnur nú að sýningu í sam­starfi við hann fyrir komandi leik­ár.

„Það er í raun alveg magnað hvað hann hefur haft mikil á­hrif á marga, þegar verið er að fara yfir leiðandi leik­stjóra í dag,“ segir Magnús.