Sólveig Andrea hefur alltaf haft mikinn áhuga á hönnun og öllu því sem tengist hönnun. Hún lærði innanhússarkitektúr í Mílanó á Ítalíu og útskrifaðist árið 1998 frá Istituto Superiore di Architettura e Design í Mílanó. Hún hefur verið sjálfstætt starfandi frá árinu 2014 en hefur unnið gegnum tíðina hjá Pennanum, TARK arkitektastofu og síðast á AKS arkitektastofu. „Ég nýt þess að vera sjálfstætt starfandi og ráða tíma mínum sjálf, geta unnið þegar mér hentar og á hvaða tíma sem er,“ segir Sólveig Andrea sem hefur mikla ástríðu fyrir því sem hún er að gera, teikna og hanna fyrir ólíka einstaklinga og koma til móts við óskir þeirra og drauma.

Þegar við vorum að hanna baðherbergin á Hverfisgötunni vorum við að hugsa um að hafa þau kósí og reyna að fá svona „spa“ stemmingu þar inni sem eykur notagildið til muna.

Sólveig Andrea hannaði meðal annars þessi glæsilegu baðherbergi í loftíbúð við Hverfisgötuna með glæsilegri útkomu. Hér hefur notagildið og fagurfræðin farið vel saman.

Samræmi í lita- og efnisvali

Þegar kemur að því að teikna og hanna ákveðin rými innan heimilisins er brýnt að huga að heildarmyndinni við önnur rými. „Það sem mér finnst mikilvægt þegar það er verið að hanna heimili og taka það allt í gegn er að mynda heild. Hafa samræmi í lita- og efnisvali við það sem er fyrir svo það skapist flæði á milli rýma. Einnig er mikilvægt að ef um fleiri baðherbergi er að ræða að hafa þau í svipuðum stíl. Nota sams konar innréttingarnar, hafa „minni“ útgáfu af því stóra sem er oftast gestabaðherbergi.“

Handklæðaofninn passar vel inn í umhverfið, keyptur í Byko. Handlaugar og salerni eru frá Ísleifi Jónssyni.

Notagildið og fagurfræðin fara vel saman

„Brýnt er að leggja bæði áherslu á þægindi og notagildi svo rýmið fái notið sín en allt þarf þetta að haldast í hendur. Það er ekki til neins að hanna eingöngu fyrir útlitið ef notagildið er ekki til staðar.

Þegar við vorum að hanna baðherbergin á Hverfisgötunni vorum við að hugsa um að hafa þau kósí og reyna að fá svona „spa“ stemmingu þar inni sem eykur notagildið til muna. Flísarnar eru valdar með það í huga að þær séu náttúrulegar og innréttingar dökkar eins og annað í íbúðinni. Við settum ekki flísar á alla veggi heldur leyfðum veggjunum sem fyrir voru að halda sínu útliti og áferð, eins og hægt var en máluðum þá. Einnig skiptir lýsingin miklu máli þegar verið er að hanna baðherbergi. Góð vinnu- og stemmingslýsing er lykilatriði þegar kemur að hönnun baðherbergja og ég lagði mikið upp úr því við hönnun þessara baðherbergisrýma.“

Vandað er til verka á baðherbergjunum. Útlitið er nýtískulegt, stílhreint og rúmgott pláss fyrir alla hluti.
Reyklitaða glerið við sturtuna setur skemmtilegan svip á umhverfið.
Litlu hlutirnir gera mikið fyrir rýmið. Flísarnar eru stórar og í fallegum jarðlit, grátóna og eru líka frá Birgisson.
Innréttingar frá Fagus í Þorlákshöfn. Blöndunartækin eru svört, mjög flott ítölsk hönnun með mjúkum línum og fagurfræðin skín í gegn. Sturtuhausarnir eru svartir, líta út eins og stórir dropar og koma vel út. Blöndunartækin eru frá Birgisson.