„Já, hún lifir bara góðu lífi enn sem komið er í ár og það eru komin nokkur ár sem hún hefur alveg fengið að vera í friði,“ segir Guðný Camilla Aradóttir, yfirmaður samskiptadeildar IKEA, um geitina sem hefur öðlast ákveðinn sess í þjóðarsálinni og framan af þá einna helst í ljósum logum.

Áföll geitarinnar í gegnum tíðina eru af ýmsum toga og þannig hefur hún orðið fyrir bíl og 2011 fauk hún um koll í illviðri. 2015 var ákveðið að herða öryggisgæsluna í kringum hana. Þá má segja að hún hafi séð sjálf um að farga sér þar sem þá kviknaði í henni út frá jólaseríu.

Gæsla við geitina var hert 2015 en þá kveikti hún bara í sér sjálf en hefur síðan notið friðhelgi frá því hún brann síðast 2016.
Fréttablaðið/Samsett

Hálmgeitinni var fyrst stungið niður í Kauptúni í Garðabæ fyrir jólin 2010 en þá var kveikt í henni á Þorláksmessu. Hún átti síðan eftir að verða eldi að bráð aftur en síðast tókst að bera eld að henni 2016.

Guðný Camilla segist því vona að það sé komið úr tísku að veitast að geitinni með þessum hætti. „Það er voða mikið gert grín að þessu á Twitter og svoleiðis en vonandi fær fólk bara útrás þar.“

Guðný Camilla rifjar síðan upp hópamyndun á Facebook 2019 þegar tæplega 5.000 manns boðuðu komu sína á viðburðinn: Kveikjum í geitinni, þau geta ekki stöðvað okkur öll. „Það var búið að stefna fólki hingað eitthvert kvöldið en það varð ekkert úr því.“

Geitarinnar er þó engu að síður enn vel gætt allan sólarhringinn enda allur varinn svo sem góður:

Guðný Camilla bætir aðspurð við að hún telji fólki almennt vera farið að þykja frekar vænt um geitina og virðist geta sýnt henni hlýhug án þess að kveikja beinlínis í henni. „Hún fær vonandi bara að fá að vera í friði.“