Í þættinum Matur og heimili í vikunni heimsótti Sjöfn Þórðar meðal annars veitingastaðinn Duck & Rose sem staðsettur er í hjarta miðborgarinnar í sögufrægu húsi við Austurvöll þar sem Kaffi París var áður til húsa og þar áður tóbaksverslunin London. Húsið hefur sinn sjarma og minnir á gamla tímann, reisulegt og fallegt á einu af besta horni miðborgarinnar.

Að veitingastaðnum standa fimm eigendur og hittir Sjöfn tvo þeirra, Margréti Ríkharðsdóttur matreiðslumann, sem ávallt er kölluð Magga og Snorra Björgvin Magnússon veitingastjóra og þjónn. Magga er mikill listakokkur og er innblásin ástríðu fyrir matargerð. Hún blómstrar í eldhúsinu og hefur þróað matseðilinn frá því staðurinn opnaði. Sérstaða staðarins í dag er ítölsk matargerð með frönsku ívafi en frönsku andarréttirnir hafa ávallt verið í hávegum hafðir frá því að staðurinn opnaði.

Vinsælasti rétturinn er sítrónupasta rétturinn

Sjöfn fær Möggu til að segja frá hvaðan ástríðan á matargerðinni kemur og töfrum réttanna sem boðið er upp á Duck & Rose. „Á matseðlinum er meðal annars að finna marengsinn sem kemur úr smiðju móður minnar heitinnar, en hann hefur verið á matseðlinum frá upphafi,“ segir Magga og er þakklát að hafa fengið að njóta þess að læra af móður sinni að elda jólamatinn svo fátt sé nefnt.

Snorri elskar starf sitt sem þjónn og segir að engin tilfinning sé betri en að vera með fullan sal af ánægðum fólki sem nýtur þess að snæða matinn sinn og þeirra þjónustu sem boðið er upp á.

„Það er í raun hlutverk þjónsins að fá gesti til að gleyma öllu daglegu áreiti og eina sem þeir eiga hugsa um er matarupplifunin í heild sinni, ekkert annað,“ segir Snorri.

Magga galdra fram einn vinsælasta rétt staðarins, pastarétt sem steinliggur, fyrir Sjöfn þar sem kryddin setja punktinn yfir i-ið.

„Þessi réttur , sítrónu tagliette er sá allra vinsælasti hjá okkur,“ segir Magga.

Meira um sérstöðu staðarins, ástríðu Möggu og Snorra fyrir starfi sínu, í þættinum Matur og heimili á Hringbraut alla þriðjudaga klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.

Þáttinn er hægt að horfa á hér að neðan.