„Samvinna okkar Friðþjófs hefur verið einstök og mjög ánægjuleg,“ segir Páll á Húsafelli, en Friðþjófur kom á sínum tíma að gerð heimildarmyndar Páls Steingrímssonar um listamanninn.Páll hefur alltaf verið í nánu sambandi við náttúruna.

„Málarar voru mikið á Húsafelli. Ásgrímur Jónsson var þarna á sínum tíma og hann gerði mynd af móður minni og gaf henni síðan mynd í fermingargjöf. Tólf ára gamall var ég farinn að mála myndir og seinna fór ég að gera höggmyndirnar. Ég hef átt stórvini í hópi listamanna; Valtý Pétursson, Hallstein Sveinsson bróður Ásmundar Sveinssonar og Thor Vilhjálmsson.“

Honum verður tíðrætt um Thor sem var mikill vinur hans. „Ég var með sýningu á Kjarvalsstöðum árið 1985 og sýndi eingöngu höggmyndir. Þá kynntist ég Thor sem kom oft á sýninguna. Hann var einstakur vinur, mikill vinur vina sinna og einn besti vinur sem ég hef átt.

Okkar vinátta var mjög falleg. Hann kom oft á Húsafell og var þá kannski í vikutíma að skrifa og á kvöldin las hann upp úr handritum sínum. Hann var líka að mála. Tíminn skipti ekki neinu máli hjá okkur. Við áttum dýrmætar stundir saman.“

Páll er einstaklega ánægður með bókina. „Hún er fallega sett upp og myndirnar eftir Friðþjóf eru stórkostlegar. Þarna sést svo vel þróunin í listsköpun minni.“

Á löngum ferli hefur hann málað og teiknað, unnið bergþrykk og svellþrykk, gert höggmyndir, steinristur og smíðað steinhörpur.

Um listsköpun sína segir hann: „Mitt hlutverk í lífinu er að skapa list. Það er númer eitt hjá mér. Það eru forréttindi að vera listamaður og hafa stað eins og Húsafell þar sem ég hef aðgang að fagurri náttúru. Ég vinn mjög mikið, er alltaf að. Það hefur aldrei komið neitt annað til greina en að vera listamaður, svo einfalt er það.“