Magnús Maríuson fer með hlutverk í kvikmyndinni The Vagabonds eftir Doroteyu Dromevu, sem frumsýnd er á Cannes í komandi viku.

Magnús er sonur Maríu Sólrúnar Sigurðardóttur leikstjóra og á því listina ekki langt að sækja. Hann fór með aðalhlutverk í kvikmyndinni Adam frá árinu 2018, sem frumsýnd var á Berlinale-hátíðinni. „Við mamma gerðum þessa kvikmynd saman,“ segir hann.

Lék í þýskri risaframleiðslu

Magnús er alinn upp í Berlín en talar góða íslensku. Hann hefur verið önnum kafinn í faginu frá árinu 2015 og segir óvænt að hafa verið boðið að fylgja The Vagabonds á Cannes. „Ég vissi að Doroteya Droumeva, leikstjórinn sem gerði þessa mynd, vann Cinéfondation-verðlaunin fyrir Der Brief árið 2011. Þess vegna var henni boðið að frumsýna sína kvikmynd í Cannes á þessu ári,“ segir hann.

Síðustu ár hefur Magnús starfað í London og í Finnlandi. „Nú er ég kominn til baka til Berlínar. Ég var að leika í þáttaröðinni Das Boot,“ segir hann og vísar til risastórrar þýskrar framleiðslu fyrir Sky one, sem er byggð á samnefndri bók Lothar-Günther Buchheim frá 1973, og er framhaldssaga af kvikmynd Wolfgang Petersen frá árinu 1981. „Þetta er eiginlega stærsta framleiðsla frá Þýskalandi frá upphafi og það er mikill heiður að fá að vera með í því. Ég var samt í aukahlutverki,“ segir hann glettinn.

Alinn upp í bransanum

Aðspurður hvernig andrúmsloftið sé á Cannes, svarar Magnús að mikill fjöldi sé á svæðinu. „Það er alveg tilfinningin að fólk sé búið að bíða í tvö ár eftir að geta komist hingað og sýnt sig og notið alls þessa nýja sem er í boði,“ segir hann.

Magnús er alinn upp í bransanum og segist hafa fylgt foreldrum sínum á kvikmyndahátíðir síðan í æsku. „Ég fékk að fara með og hef farið á Berlinale, og hef tvisvar áður farið á Cannes. Þess vegna er þetta svolítið náttúrulegt umhverfi fyrir mig,“ segir hann.

Hefur „deitað“ sér eldri konur

Í The Vagabonds fer Magnús með hlutverk Lucky, elskhuga aðalpersónunnar, konu á miðjum aldri. Söguþráður myndarinnar hverfist í kringum fordóma og tabú sem fylgir aldursmun í samböndum þar sem konan er eldri. „Aðalpersónan mætir miklum fordómum og upplifir eitraða karlmennsku í kringum sig. Þessi saga er byggð á reynslu leikstjórans,“ segir Magnús. „Persónan heldur að karakterinn minn sé stóra ástin hennar, en svo kannski gerist eitthvað,“ segir hann og hlær.

„Ég er ber að ofan á plakatinu og er að upplifa svolítið svipaða hluti og konur hafa upplifað mjög lengi, þegar þær eru hlutgerðar. Fólk hefur verið að gagnrýna hvernig líkaminn birtist og svona,“ segir Magnús.
Mynd/Aðsend

Aðspurður um undirbúninginn fyrir hlutverkið, segist Magnús hafa velt fyrir sér sinni eigin stefnumótasögu, sérstaklega í tengslum við Tinder. Hann hafi einnig „deitað“ konur sem eru eldri en hann og því hafi hugmyndin ekki verið honum mjög framandi.

„Þess vegna kom þetta svona náttúrulega og ég skil alveg karakterinn og hvers vegna hann gerir hlutina sem hann gerir,“ segir Magnús.

Hlutgerður vegna plakats

Hann segir plakat myndarinnar hafa opnað fyrir honum sýn í heim kvenna sem hann þekkti ekki áður, þegar fólk áreitti hann vegna nektarinnar. „Ég er ber að ofan á plakatinu og er að upplifa svolítið svipaða hluti og konur hafa upplifað mjög lengi, þegar þær eru hlutgerðar. Fólk hefur verið að gagnrýna hvernig líkaminn birtist og svona,“ segir hann og bætir við að hann sé þó glaður að hafa tekið þátt í verkefninu. Að sjálfsögðu sé leikstjórinn að hlutgera hann á plakatinu og geri það mjög meðvitað. Konur hafi gengið í gegnum hið sama í gegnum tíðina og nú sé kominn tími á breytingar.

„Mér finnst líka svo mikilvægt að skilja konur og skilja fordómana sem þær mæta.“

Aðspurður hvort að hann telji að hlutverk á borð við þetta hafi áhrif á hlutverkin sem hann fái í framtíðinni, svarar Magnús: „Þetta hefur örugglega áhrif. Ég er mjög oft valinn sem „love interest,“ og á að leika einhvern sem er svona sætur. Ég fæ oft slíkar rullur,“ segir hann.