Verzlunarfjelag Árneshrepps hefur starfað í Norðurfirði á Ströndum síðan í febrúar 2019 og má með sanni segja að búðin hafi slegið í gegn á hinum fámenna stað. Auglýst var eftir hlutaféi í upphafi og máttu allir gerast hluthafar.

Verzlunarfjelagið rær nú að því öllum árum að styrkja reksturinn til lengri tíma og geta sveitungar og aðrir velunnarar nú bæst í hópinn sem hluthafar. Arinbjörn Bernharðsson, stjórnarformaður Verzlunarfjelagsins, segir móttökurnar hafa verið vonum framar, enda upprunalegir hluthafar 139 talsins á meðan íbúar í Árneshreppi eru um fjörutíu talsins.

Hjartað í Norðurfirði

„Áhuginn fór fram úr okkar björtustu vonum. Svo auglýstum við eftir fleiri hluthöfum nú á þriðjudagskvöld og þetta fer vel af stað,“ segir Arinbjörn sem sjálfur dvelur á Norðurfirði á sumrin og rekur ferðaþjónustu.

„Þetta er lítið samfélag og það hefur áhrif á okkur. Það er lítil velta yfir veturinn, fáir íbúar og þá vegur flutningskostnaðurinn þyngst enda er allt flutt með flugi,“ segir Arinbjörn. Hann hrósar Thomasi verslunarstjóra í hástert og segir Verzlunarfjelagið hjartað í byggðinni á Norðurfirði.

„Við erum einstaklega heppin með verslunarstjóra. Það elska allir Thomas og þegar komið er fram á vetur og lítið er um að vera býður hann oft upp á köku sem hann er nýbúinn að baka. Þetta er félagsmiðstöð svæðisins. Á sumrin mæta trillukarlarnir svo inn í setustofuna og tala um veiði dagsins, næstu áform, fiskinn og hversu lítill strandveiðikvótinn sé og allt þetta,“ segir Arinbjörn hlæjandi.

Vill hvergi annars staðar vera

Thomas Elguezabal hefur starfað í Verzlunarfjelaginu frá upphafi og tók við keflinu af Árnýju Björk Björnsdóttur sem verslunarstjóri í ágúst 2019. „Stutta svarið er að ég kom hingað sem ferðamaður og kolféll gjörsamlega fyrir staðnum,“ segir Thomas, sem upprunalega er frá Frakklandi en hefur búið á Íslandi síðustu sjö ár.

„Svo sá ég starfsauglýsinguna fyrir þetta starf og sló strax til. Ég elska þennan stað og það er algjör draumur að rætast hjá mér að geta aðstoðað þetta litla samfélag,“ segir Thomas. Hann segir Verzlunar­fjelagið gríðarlega mikilvægt.

„Enda er þetta eina verslunin hér sem er opin allt árið um kring. Ég er virkilega stoltur af því og að vera hluti af áframhaldandi sögu þessa staðar,“ segir Thomas. Hann segist upplifa samfélagið á Norðurfirði eins og fjölskyldu.

„Við hugsum um hvert annað hérna. Þetta er þriðji veturinn minn hér og við erum mjög afskekkt en þetta er sturluð lífsreynsla, að sjá um að halda rúmlega tíu manna samfélagi gangandi.“