Eitt vinsælasta hlaðvarp landsins er vafalaust Þarf alltaf að vera grín? með þeim Tinnu Björk Kristinsdóttur, Ingólfi Grétarssyni og Tryggva Frey Torfasyni. Í kvöld fer fram „live“ upptaka á þáttunum í Gamla bíói, en það seldist upp á sýninguna á einungis örfáum mínútum.

Taktleysi og nostalgía

Þau eru öll vinsæl á samfélagsmiðlunum Instagram og Snapchat þar sem þau sýna frá sínu daglega lífi, gera grín og eftirhermur og skapa hina ýmsu karaktera. Tinna Björk og Ingólfur eru kærustupar og eignuðust soninn Huginn Grétar á síðasta ári. Tryggvi er æskuvinur Tinnu en þau eru öll hinir mestu mátar og segja það eflaust spila mikið inn í vinsældir hlaðvarpsins; þeim finnist þetta einfaldlega svo gaman.

„Í hverjum þætti erum við með eitthvert þema eða í raun orð og svo spinnst umræðan út frá því. Við höfum verið með orð á borð við taktleysi, heppni og nostalgía,“ segir Ingólfur.

„Þetta er bara smá eins og þú sért að hanga með félögum þínum og þið byrjið að tala um eitthvert umræðuefni, til dæmis æsku ykkar. Þá fer allt á fullt, allir hafa sögur að segja sem tengjast umræðuefninu. Einhver nefnir bláan Ópal og sá næsti fer að tala um Frissa fríska. Pælingin er að við köstum einhverri hugmynd fram og ræðum svo eins og vinahópar gera,“ segir Tryggvi.

Þau segja umræðuefnið þá oftast fara á fullt. Nú þegar hafa þau gert yfir sjötíu þætti af hlaðvarpinu, en þættirnir koma út vikulega.

Tinna og Ingólfur eru kærustupar, en Tinna og Tryggvi eru æskuvinir.
Fréttablaðið/Ernir

Óvænt frændur

„Við leyfum þessu sem mest að flæða eðlilega hjá okkur, þótt við punktum sjálf kannski niður hvað við viljum ræða,“ segir Tinna.

„Svo pössum við að tala ekkert við hvert annað um umræðuefnið fyrir þáttinn svo öll viðbrögð séu sem eðlilegust og einlægust,“ segir Tryggvi.

„Það er lúmskt markmið hjá okkur að koma hvert öðru á óvart þegar við tökum upp þættina. Við viljum hafa þetta eins eðlilegt og hægt er því þannig eru samtöl,“ segir Ingólfur.

„Gott dæmi um það er þegar Tryggvi þurfti að sitja á því í nokkra daga að hann hefði flett Ingó upp á Íslendingabók og komist að því að þeir eru náskyldir frændur,“ segir Tinna.

„Ég þagði um það í fjóra daga,“ segir Tryggvi og viðurkennir að það hafi ekki verið auðvelt.

Ingólfur segir að það hafi samt vissulega skapað mun skemmtilegri samræður.

,,Við fórum þá í beinni að spyrja hvor annan hvort hann þekkti hinn eða þennan úr fjölskyldunni,“ segir Ingólfur.

„Við höfum mikið hangið saman undanfarin ár og farið oft til útlanda en ekkert okkar hafði hugmynd um að þeir væru svona skyldir. Með því að ræða það ekki áður kom þetta svo vel út, ég var hálfan þáttinn að segja aftur og aftur: Ég trúi þessu ekki!“ segir Tinna.

Þremenningarnir spjalla oft góðan klukkutíma áður en upptakan einu sinni hefst.
Fréttablaðið/Ernir

Nafnið á vel við

Tryggvi segir þættina hafa þróast mikið með tímanum.

„Fyrst vorum við bara með stutt spjall áður en við fórum í viðfangsefni þáttanna. Núna er það oft farið að teygja sig upp í klukkutíma þar sem við erum bara að tala um daginn og veginn. Í síðasta þætti vorum við Tinna að tala um snyrtidót og förðun. Ingólfur kom þá alltaf með einhver skemmtileg „input“. Ekki að ég viti neitt sérstaklega mikið um förðun en ég hef samt alveg skoðun. Við leyfum okkur að fara hvert sem er með með samræðurnar,“ segir Tryggvi.

„Þau voru að tala um förðun á frekar alvarlegum nótum en mig langaði bara að grínast,“ segir Ingó.

Þau segja nafnið á hlaðvarpinu því ná mjög vel yfir þá sýn sem þau höfðu fyrir það.

„Okkur langaði að hafa möguleikann á bæði. Við grínumst mikið á samfélagsmiðlum en þegar við færðum okkur yfir í þennan miðil vildum við hafa þetta opið,“ bætir Ingó við.

Dyggir hlustendur

Í kvöld er þriðja skiptið sem þremenningarnir flytja þáttinn í beinni. Þau segja miðasölu hafa gengið vonum framar og að þau séu hlustendum sínum ótrúlega þakklát. Þau hafi langað að bæta við sýningu en eðli þáttanna geri það að verkum að ekki er hægt að endurtaka sama þátt alveg eins.

„En við stefnum á að gera þetta aftur mjög fljótlega,“ segir Tinna.

„Við höfum fengið mjög mörg skilaboð frá hlustendum sem eru svekktir yfir að hafa ekki fengið miða,“ segir Tryggvi.

Rúmlega 20.000 manns hlusta á hvern þátt af Þarf alltaf að vera grín?

„Þetta er orðið stærra en samfélagsmiðlarnir hjá okkur. Hlustendurnir leggja meira á sig til að nálgast efnið, það þarf að hafa fyrir því að finna þáttinn og hlusta á hann allan, sem okkur finnst geggjað að fólk geri. Á samfélagsmiðlunum var maður einn af mörgum sem fólk var að fylgja og efnið manns kom bara „automatískt“ í röð á eftir öðrum. Mér finnst meiri áhugi á þessu,“ segir Ingólfur.

„Ég er sammála, fólk þarf að hafa meira fyrir því að hlusta á hlaðvarpið og mér finnst mjög gaman að fólk geri það. Sumir hlusta meira að segja nokkrum sinnum á sama þáttinn. Við kunnum virkilega mikið að meta þann stuðning sem við höfum fengið,“ segir Tryggvi.

Þau stefna á að halda annan ,,live" Þarf alltaf að vera grín? sem allra fyrst.
Fréttablaðið/Ernir

Sprengitöflur yfir hláturskasti

Tinna er einnig með hlaðvarpið Mistería, en því stjórnar hún ásamt Árnnýju, kærustu Tryggva. Mistería er ekki síður vinsælt, með álíka marga hlustendur á hvern þátt, en í því taka þær fyrir dulafull mál og kryfja til mergjar.

„Það er ekki alltaf um morð og stundum eru málin óleyst,“ útskýrir Tinna.

Þau segjast einstaklega heppin með aðdáendur, þótt þau sjálf séu of hógvær til kalla hlustendur sína slíka.

„Við fáum mikið af skilaboðum frá Íslendingum sem búa erlendis og finnst gaman að hlusta á þættina til að upplifa eðlilegt íslenskt spjall, eru kannski með heimþrá eða sakna þess smá, þetta svona ofvirka úr einu í annað spjall,“ segir Ingólfur.

„Já, ég hef tekið eftir því,“ segir Tryggvi.

„Stundum hefur fólk líka nefnt að það hjálpi því að hlusta þegar það er einmana,“ bætir Tinna við.

Íslenskt frændfólk Tryggva flutti til Ástralíu fyrir meira en þremur áratugum, en þau halda mikið upp á þættina.

„Þrjú af þeim hlusta, en af þeim þremur eru tvö yfir sextugt. Frændi minn sem er hjartveikur sendi línu á mig um daginn um að hann hefði verið að hlusta og hefði fengið svo mikið hláturskast að hann hefði þurft að ná í sprengitöflurnar sínar. Hann skrifaði í tölvupóstinum að við hefðum næstum verið búin að drepa hann,“ segir Tryggvi.

Góðir vinir

Þau segja eiginlega einu neikvæðu viðbrögðin sem þau fá snúast um málfar og slettur.

„En við gerum líka grín að því að við séum ekki alveg alltaf með það á hreinu. Við tókum bara ákvörðun um að pæla ekki of mikið í því til að trufla ekki flæðið. Ég kann náttúrulega varla stakt orð í íslensku,“ segir Ingólfur.

„En fólk fyrirgefur okkur það mikið. Við erum að tala eins og Ingó segir, í miklu flæði, og það í alveg tvo klukkutíma. Við hættum bara að vera að rembast við það að hafa slíkt fullkomið. Það getur tekið smá á að tala stanslaust í nokkra klukkutíma. Flestir átta sig á því að svona líður okkur náttúrulegast að tala og þættirnir verða skemmtilegri,“ segir Tinna og heldur svo áfram:

„En svo erum við líka svo góðir vinir og okkur finnst svo ótrúlega gaman að tala saman. Ég held að það skili sér til hlustenda.“

Hægt er að nálgast þættina á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Tinna heldur einnig úti Hlaðvarpinu Mistería með Árnnýju kærstu Tryggva.
Fréttablaðið/Ernir