Tæplega fjögur hundruð manns komu saman fyrir framan veitingastaðinn Food Station við Digranesgötu til að horfa á kvikmyndina Nýtt Líf. Kvikmyndafjelag Borgarfjarðar stóð fyrir bílabíói í gærkvöldi og segja viðbrögðin hafa verið gríðarlega jákvæð. Um hundrað bílar hafi verið á bílaplaninu. Kvikmyndinni var varpað á hvítan flöt á trukki.

Mynd: Gunnhildur Lind

„Stemningin var hreint út sagt frábær og fjöldi bíla sem mættu kom okkur skemmtilega á óvart. Fólk úr Reykjavík gerði sér ferð í sveitina og einnig sáust Akurnesingar í hópnum. Hávaðinn að lokinni sýningu var síðan gríðarlegur þegar bíógestir þeyttu bílflautur til að þakka fyrir sig,“ segir Eðvar Ólafur Traustason, einn skipuleggjenda sýningarinnar, í samtali við Fréttablaðið. Hann bætir við að Sigthora Odins hafi fengið hugmyndina að sýningunni og skipulagt hana með Kvikmyndafélaginu.

Skipuleggjendur fóru eftir öllum reglum og viðmiðum sem almennt voru settar af hálfu Heilbrigðisráðuneytis og Almannavarna og voru að sjálfsögðu aldrei fleiri en 20 í hverjum bíl.

Sýningin var gjaldfrjáls en viðstöddum var bent á að hægt væri að láta gott af sér leiða og styðja við starf Vesturlandsdeildar Rauða krossins með frjálsum framlögum.

„Þetta er tilraun hjá skapandi fólki á svæðinu til að hlúa að náunganum og setja í framkvæmd viðburð sem áhugasamir geta hlakkað til að upplifa,“ segir á viðburðarsíðu skipuleggjenda á Facebook.

Fréttablaðið ræddi við forsvarsmenn Kvikmyndafélagsins sem segja mögulegt að halda svipaðan viðburð aftur þar sem viðbrögðin hafi verið svo jákvæð.

Verkefnið var styrkt af Borgarbyggð og unnið í samvinnu við Hestamannafélagið Borgfirðing, Exton tækjaleigu, Senu og Þráin Bertelsson, Júlla Jóns ehf , björgunarsveitina Brák, Heilbrigðisráðuneytið, Borgarnes skutluna, Food Station og Steypustöðina.

Frábær stemning í bílabíói.
Mynd: Gunnhildur Lind

Skipuleggjendur benda lesendum Fréttablaðsins á að styrkja Rauða krossinn með frjálsum framlögum.

Kennitala: 620780-3679

Bankareikningur: 0326 – 26 – 003679